Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 22. maí 2004, kl. 12:38:23 (8842)

2004-05-22 12:38:23# 130. lþ. 122.5 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 130. lþ.

[12:38]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að heyra þennan málflutning, sérstaklega í ljósi þess að nú eru nokkrir mánuðir síðan stærstur hluti af þingflokki Vinstri grænna flutti hér þingsályktunartillögu og það var áður en þessi samþjöppun varð eins og við horfum upp á núna, áður en Frétt rann saman við Norðurljós. Út á hvað gekk þessi þingsályktunartillaga sem á voru fulltrúar Vinstri grænna og m.a. hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson frá Frjálsl.? Þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Nefndin kanni m.a. eftirfarandi atriði sérstaklega:

a. hvort þörf sé á að sporna með lagaákvæðum eða öðrum hætti gegn óæskilegri samþjöppun á fjölmiðlamarkaði, svo sem að óheimilt sé að dagblöð eða aðrir áhrifamiklir prent- og ljósvakamiðlar séu í eigu sömu aðila.``

Ég endurtek: ,,... svo sem að óheimilt sé að dagblöð eða aðrir áhrifamiklir prent- og ljósvakamiðlar séu í eigu sömu aðila``.

Og svo ég taki c-þáttinn líka:

,,c. hvort ástæða sé til að takmarka sérstaklega möguleika aðila til eignarhalds á fjölmiðlum sem eru markaðsráðandi eða mjög umsvifamiklir á öðrum sviðum viðskipta, t.d. á sviði fjármálaþjónustu.``

Þetta er áður en þessi gríðarlega samþjöppun á sér stað. Þá taka Vinstri grænir þetta sérstaklega upp og formaður flokksins, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, segir að þá sé ,,stutt í hið rússneska ástand, íslenska ,,ólígarka``, nýríka viðskiptajöfra`` sem rækju áróður fyrir hagsmunum sínum. Þetta segja menn hjá Vinstri grænum áður en þessi samþjöppun á sér stað. Þegar svo er tekið á þessu, hvar eru þá vinstri grænir?