Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 22. maí 2004, kl. 12:40:32 (8843)

2004-05-22 12:40:32# 130. lþ. 122.5 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 130. lþ.

[12:40]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson til að fara hér með mér yfir þingsályktunartillöguna sem vinstri grænir stóðu að ásamt með fulltrúum úr öðrum flokkum. Ég fór sjálf yfir hana í ræðu minni, nefndi hana til marks um það að vinstri grænir hafi ævinlega viljað ræða fjölmiðlamarkaðinn, stöðuna á honum og hættumerkin sem eru samfara samþjöppun í eignarhaldi. Hins vegar sagði ég líka í ræðu minni að þessi umræða sem við óskuðum eftir hefði ekki verið tekin. Það var sett lok á hana. Henni var ritstýrt. Hún var heft af hæstv. forsrh. sem heimilaði ekki umræðu um skýrslu fjölmiðlanefndarinnar fyrr en hann var búinn að ákveða hvað af henni hann vildi gera að orðum sínum, hvers konar löggjöf hann vildi sjá. Tillaga sú sem vinstri grænir höfðu forgöngu um að var flutt hér fyrr í vetur gekk út á það að málið yrði skoðað á breiðum grunni, nákvæmlega undir því ljósi sem segir í greinargerð með tillögunni. Nefndin sem við gerðum ráð fyrir að yrði stofnuð átti að vera breiðfylking stjórnmálaflokkanna. Hún átti að vera pólitísk, þingflokkarnir áttu að hafa þar aðild, og síðast en ekki síst Blaðamannafélagið. Þeir sem starfa á fjölmiðlamarkaði eiga auðvitað að koma að þessari umræðu líka, ásamt með mönnum úr fræðasamfélaginu.

Ég segi: Vinstri grænir hafa alltaf og ævinlega viljað að þessi staða yrði tekin til skoðunar, ítarlegrar umfjöllunar. Það er samt lykilatriði að sú umræða sé lýðræðisleg og að það sem kristallist út úr henni verði það sem við síðan erum tilbúin til að taka upp í lagasetningu. Hvers vegna halda menn annars að Norðmenn hafi tekið fjögur ár í umræðuna um nákvæmlega þessi mál? Það er vegna þess að Norðmenn stóðu skynsamlega að málum. Ég vildi óska að ríkisstjórn Íslands hefði borið gæfu til að taka jafnskynsamlega á málum. Það gerði hún því miður ekki og liggur þess vegna núna eins og hún liggur í þessu máli.