Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 22. maí 2004, kl. 12:42:43 (8844)

2004-05-22 12:42:43# 130. lþ. 122.5 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 130. lþ.

[12:42]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá kemur þetta bara mjög skýrt fram. Ég þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir heiðarlegt svar. Vinstri grænir vilja ræða þetta en þeir þora ekki að taka á þessu. (Gripið fram í.) Einfaldara getur það ekki verið. Formaður flokksins hefur farið hér mikinn og kallað menn m.a. gungur og fleiri nöfnum eins og við þekkjum en þegar kemur að þessu vilja þeir bara ræða málin en það má ekki taka á þeim.

Af því að ég hef smátíma hér er ágætt að fara yfir umræðuna. Hún er ekkert ný eins og allir vita, umræðan sem vinstri grænir tóku. Ég vitna hér í ræðu Álfheiðar Ingadóttur, með leyfi forseta. Hún segir hér:

,,Á haustdögum varð hér nokkur umræða um samþjöppun á fjölmiðlamarkaði á Íslandi. Meðal annars var haft eftir ritstjóra eins stórveldisins á fjölmiðlamarkaðnum hér að það væri umhugsunarefni þegar viðskiptablokkir og bankar væru farnir að sækjast eftir eignarhaldi á fjölmiðlum. Formaður Blaðamannafélags Íslands, Róbert Marshall, sem er fréttamaður á Stöð 2, kallaði þá eftir fjölræði í fjölmiðlun, þ.e. að til væru margar fréttastofur í eigu margra ólíkra aðila. ,,Það tryggir,`` sagði formaður Blaðamannafélagsins, með leyfi forseta, ,,að það sem einn miðill fjallar ekki um það fjallar einhver annar miðill um.````

Þetta var formaður Blaðamannafélagsins og þetta er partur úr ræðu frá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur.

Það liggur fyrir þegar maður flettir í þingræðum að menn hafa rætt málið. Ég vek athygli á því að þessi þingsályktunartillaga er lögð hér fram áður en hin gríðarlega samþjöppun á sér stað. Þá hafa vinstri grænir og frjálslyndir gríðarlegar áhyggjur af samþjöppuninni. Síðan þegar samþjöppunin verður enn þá meiri, virðulegi forseti, kemur í ljós að vinstri grænir vilja bara ræða þetta. Þeir vilja ræða þetta en þeir þora ekki að taka á þessu. (GAK: Heldurðu ...?) Ég þakka bara ... Fyrirgefðu, ég gleymdi frjálslyndum, virðulegi forseti, þeir eru auðvitað með í þessu líka. (Gripið fram í: ... í Baugsliðinu?) Ég held, virðulegi forseti ... (GAK: Erum við ekki í Baugsliðinu?) Virðulegi forseti, ég vil fá að svara þessu andsvari. Hér er spurt hvort þeir séu ekki í Baugsliðinu. Ég held ekki. Ég held að þá skorti bara þor og þrek og ég held einfaldlega að vinstri grænir þori ekki.