Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 22. maí 2004, kl. 12:45:05 (8845)

2004-05-22 12:45:05# 130. lþ. 122.5 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 130. lþ.

[12:45]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Stjórnarandstöðuna skortir hvorki þor né þrek í þessu máli, svo sannarlega ekki. Við höfum þrek í áralanga umræðu um fjölmiðla. Við þurfum ekki að ýta á eftir hlutum eins og hv. stjórnarliðar hafa gert. Við erum tilbúin til að taka þessa umræðu, bera hana undir almenning, bera hana undir fræðasamfélagið, undir það fólk sem starfar á fjölmiðlunum og eiga samtal. Við viljum starfa hér í samtali á pólitískum vettvangi en ekki undir valdboði eins og stjórnarliðar hafa hér gert.

Ég ætla bara að segja við hv. þingmann sem var hér í andsvari við mig varðandi þá þingsályktunartillögu sem var hér til umfjöllunar að auðvitað var samruni sá sem við höfum verið að fjalla um í þessari umræðu í pípunum, í sjónmáli, þegar þingmenn undir forustu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur lögðu fram þingsályktunartillögu sína. Auðvitað orsakaði hann það að við vildum ræða málin. Það var tilefni til, svo sannarlega. En hvað gera stóru, sterku strákarnir sem allir eru tilbúnir til að hafa vit fyrir öllum? Þeir vilja ekki ræða málin. Þeir vilja bara fara eftir merkinu sem foringinn gefur, fylgja honum í blindni fram af hengifluginu og enda svo nákvæmlega þar sem þeir eru núna, með lítið traust almennings hvað varðar allar stjórnarathafnir þeirra.

Ég vil ljúka þessu andsvari mínu á því að segja hv. þingmanni það sem fræðimenn hafa sagt í þessu efni: Markmið frv. er yfirvarp. Markmiðið kemur ekki til með að verða tryggt með aðferðunum sem frv. leggur til. Niðurstaðan gæti orðið sú, segir Þorbjörn Broddason, fræðimaður á sviði fjölmiðla, að fátæklegar yrði um að litast á fjölmiðlamarkaði en áður. Það mætti sem sagt grípa til þeirrar líkingar, segir fjölmiðlafræðingurinn í umsögn til allshn. að ,,aðgerðin hafi heppnast`` --- að lokinni lagasetningunni --- ,,en sjúklingurinn dáið``.