Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 24. maí 2004, kl. 13:40:38 (8850)

2004-05-24 13:40:38# 130. lþ. 123.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HjÁ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 130. lþ.

[13:40]

Hjálmar Árnason (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Með afgreiðslu frv. er verið að stíga fyrstu skref til að fylgja eftir tillögum fjölmiðlanefndar. Þá um leið er verið að stíga skref til að koma í veg fyrir samþjöppun á fjölmiðlamarkaði og stuðla þannig að fjölbreytileika í eignarhaldi á fjölmiðlum. Með því móti, virðulegi forseti, er í rauninni verið að bregðast við ákalli þingmanna allra flokka á síðustu missirum sem hafa kallað eftir því í ræðustól á Alþingi, í fjölmiðlum og á opinberum vettvangi. Viðsnúningur þeirra sömu þingmanna núna er þess vegna óskiljanlegur og hefur á engan hátt verið skýrður í hinni löngu umræðu sem hér hefur þó átt sér stað. (ÖJ: Varstu ekki við umræðuna?) Fyrir liggur, herra forseti, jafnframt hver næstu skref verða. Þau verða að styrkja Ríkisútvarpið, efla sjálfstæði þess og rekstrarumhverfi þess, og fyrir liggur, herra forseti, að næstu skref felast einnig í því að styrkja sjálfstæði einstakra fréttastofa. Með því er verið að skapa hér þá umgjörð sem ætti að koma í veg fyrir það sem kalla mætti Berlusconi-ástand á íslenskum fjölmiðlamarkaði.