Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 24. maí 2004, kl. 13:42:13 (8851)

2004-05-24 13:42:13# 130. lþ. 123.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KHG (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 130. lþ.

[13:42]

Kristinn H. Gunnarsson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Nú erum við komin að lokum þeirrar miklu umræðu um frv. sem hér er gengið til atkvæða um. Ég vil segja, herra forseti, að ég útiloka ekki að vel athuguðu máli, eftir mikla og góða athugun málsins, að rétt kunni að vera að setja löggjöf um einstaka þætti á þessum markaði. Ég hef þó fjarlægst það, herra forseti, eftir því sem á hefur liðið umræðuna að rétt sé að setja sérstaka löggjöf um eignarhald á fjölmiðlafyrirtækjum og vísa til samkeppnislaga sem nægjanlegrar löggjafar til að tryggja að ekki verði um samþjöppun að ræða um of á þessum markaði sem og öðrum mörkuðum.

Á þessu máli eru ýmsir annmarkar, herra forseti. Sá fyrsti er að málið sneiðir mjög hart að stjórnarskránni í ýmsum atriðum, bæði atvinnufrelsi og tjáningarfrelsi og eignarrétti og það er ekki rétt stefna, herra forseti, að Alþingi láti reyna til hins ýtrasta á þanþol stjórnarskrárinnar. Við eigum að umgangast hana með virðingu og gætni í lagasetningu.

Í öðru lagi felast í frv. takmarkanir á mannréttindum, bæði atvinnufrelsi og tjáningarfrelsi, og jafnvel þótt dómstólar kunni síðar að komast að þeirri niðurstöðu að ekki sé gengið yfir þau mörk sem stjórnarskráin markar er ég á þeirri skoðun að hér göngum við of langt og í ranga átt.

Í þriðja lagi, herra forseti, mun frv. eða þessi löggjöf leiða til fábreyttari fjölmiðlaflóru en nú er og hefur verið að undanförnu með því að kippa stoðunum undan rekstri fyrirtækjanna sem menn gera með því að takmarka möguleika fjársterkra aðila til að leggja fé sitt í fjölmiðlarekstur.

Í fjórða lagi, herra forseti, grundvallast frv. á vantrú á dómgreind almennings, þess sama almennings sem eðlilega meðtekur fréttaflutning fjölmiðlafyrirtækja, vegur og metur og myndar sér sína eigin skoðun á því sem þar er borið fram. Þess sama almennings sem við treystum til þess að meðtaka kosningaáróður stjórnmálaflokkanna án þess að um það þurfi að setja sérstaka löggjöf til að vernda almenning fyrir þeim áróðri. Ég tel að við eigum í þessu máli eins og öðrum að treysta almenningi til að vega og meta það sem fram er borið. Að öllu þessu saman lögðu, herra forseti, mun ég segja nei við frv. og sitja hjá við þær breytingartillögur sem fram eru bornar nú.