Almennar stjórnmálaumræður

Mánudaginn 24. maí 2004, kl. 20:32:06 (8870)

2004-05-24 20:32:06# 130. lþ. 124.1 fundur 587#B almennar stjórnmálaumræður#, MÞH
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 130. lþ.

[20:32]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Góðir Íslendingar. Við alþingiskosningarnar fyrir réttu ári tvöfaldaði Frjálsl. þingmannafjölda sinn úr tveimur í fjóra. Þrír af fjórum þingmönnum flokksins eru nú að ljúka sínum fyrsta vetri sem fulltrúar kjósenda á löggjafarsamkundu þjóðarinnar. Þessi vetur hefur verið viðburðarríkur í augum ungra þingmanna. Ekki er ofmælt að síðustu vikur þingsins í maí hafi verið eins konar eldskírn fyrir ungan þingflokk enda hefur geisað ein mesta pólitíska orrahríð sem um getur á undanförnum árum.

Nýjasta kaflanum í þeirri miklu rimmu lauk á hinu háa Alþingi laust eftir hádegi í dag. Stjórnarandstaðan varð að lúta í lægra haldi fyrir knöppu meirihlutaofbeldi stjórnarliða. Samþykkt var lagafrv. sem skerðir tjáningarfrelsi, atvinnufrelsi og skoðanafrelsi þjóðarinnar. En koma tímar og koma ráð. Þessum lögum er enn hægt að hnekkja þótt það gerist ekki í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr. Nýir valdhafar geta breytt þeim til batnaðar. Frjálsl. mun gera það komist hann í aðstöðu til þess.

Það er alvarlegt umhugsunarefni að slík löggjöf sem sett er til höfuðs einu fyrirtæki skuli yfir höfuð komast í gegnum þá málsmeðferð þingmeirihlutans sem við höfum orðið vitni að á undanförnum vikum. Ótrúleg valdníðsla í krafti lítils meirihlutavalds er rétta lýsingin á því ferli. Sumir stjórnarliðar hafa kallað það lýðræði því meiri hlutinn ráði. Það er ekki rétt. Í heilbrigðu lýðræðisþjóðfélagi skiptist fólk á skoðunum og það gefur sér tíma til að hlusta á rök þeirra sem málið varðar. Það leitast við að taka tillit til þeirra röksemda. Í umræðunni um fjölmiðlafrv. sáum við skrumskælingu á þessum leikreglum lýðræðisins.

Stjórnarandstöðuflokkarnir héldu langar ræður um efnisatriði frv. ríkisstjórnarflokkanna og aðra þætti sem varða fjölmiðla á Íslandi. Flestir þingmenn stjórnarflokkanna voru sjaldgæf sjón við umræðuna. Til undantekninga heyrði ef þeir veittu andsvör við ræðum stjórnarandstæðinga. Þó að stjórnarliðar séu þremur fleiri en stjórnarandstæðingar tóku þeir langtum sjaldnar til máls í umræðunni. Áberandi var að margir af ráðherrum ríkisstjórnarinnar kusu að taka engan eða mjög lítinn þátt í umræðunni. Ráðherrar málaflokka sem varða þetta frv. og fjölmiðlun í landinu völdu þann kost að þegja í umræðunni um frv. Hvorugur varaformanna ríkisstjórnarflokkanna tók til máls, ekki landbrh. Guðni Ágústsson, varaformaður Framsfl., ekki heldur Geir H. Haarde fjmrh. Hann hefði þó átt að blanda sér í umræðuna, ekki síst í ljósi þess að nú getur hugsast að ríkissjóður þurfi að greiða hundruð milljóna króna í skaðabætur vegna nýsamþykktra fjölmiðlalaga. Ég saknaði þess að hann skyldi ekki minnast á það í ræðu sinni áðan. Hvar var Sturla Böðvarsson samgrh. og yfirmaður samgöngumála hér á landi? Eða ráðherra viðskipta- og samkeppnismála, Valgerður Sverrisdóttir, Framsfl.? Eða æðsti yfirmaður Ríkisútvarpsins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, ráðherra mennta- og menningarmála? Hún tók heldur ekki þátt í umræðu um frv. um lög á íslenska fjölmiðla.

Þegar horft er um öxl á þá meðferð sem hið svokallaða fjölmiðlafrv. hefur fengið á hinu háa Alþingi stingur í augun sú augljósa staðreynd að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa beitt fyrir sig óbreyttum þingmönnum úr sínum röðum til að koma frv. í gegnum þingið og verja það út á við. Fótgönguliðunum hefur verið látið blæða á meðan hershöfðingjarnir hafa setið í skjóli stóla sinna. Það hlýtur að vera mikið umhugsunarefni að ráðherrar ríkisstjórnarinnar skuli með þessum hætti koma á erfiðum og vægast sagt hæpnum lagasetningum.

Góðir Íslendingar. Spyrja má hvort þetta séu þau vinnubrögð sem ríkisstjórnin ætlar að tíðka. Í ljósi þessa er svo makalaust að heyra forsrh. fullyrða að stjórnarandstöðuflokkarnir hafi forðast efnislega umræðu um eignarhald á íslenskum fjölmiðlum og starfsumhverfi þeirra. Það er einfaldlega ekki rétt og gott dæmi um það hvernig stjórnarliðar reyna nú að slá ryki í augu þjóðarinnar sem hefur fylgst í forundran með uppákomum á Alþingi á undanförnum vikum. Hið sanna er að stjórnarandstaðan hefur sýnt mikla samstöðu í baráttunni gegn fjölmiðlafrv. sem samþykkt var í dag og hvergi hvikað sér undan efnislegri umræðu um stöðu fjölmiðla á Íslandi. Það er meira en hægt er að segja um flesta stjórnarliða og þá ekki síst ráðherra ríkisstjórnarinnar. Það eru þeir sem hafa forðast umræðuna og það eru þeir sem svikust undan merkjum og fyrirheitum um að fara í verkefni sem beið okkar allra á Alþingi, einmitt það að setja heildstæða og vandaða löggjöf um starfsumhverfi og eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi.

Enn og aftur hlýt ég í ræðustól hins háa Alþingis að minna á að í haust stóðu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og Frjálsl. ásamt Sjálfstfl. og Framsfl. að þáltill. Lagt var til að Alþingi kysi nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka sem m.a. skyldi kanna starfsskilyrði fjölmiðla og huga að því hvort þörf væri á lagasetningu eða öðrum aðgerðum til að treysta stöðu sjálfstæðs og fjölbreytts fjölmiðlareksturs hér á landi. Starfið færi fram í samráði við hagsmunaaðila á borð við Blaðamannafélag Íslands og helstu fjölmiðla og samtök þeirra. Þvert á fyrri yfirlýsingar ákváðu stjórnarflokkarnir eða kannski réttara sagt forsrh. að fara í þá vinnu án samráðs við stjórnarandstöðuna og hagsmunaaðila.

Halldór Ásgrímsson, utanrrh. og verðandi forsrh., ef guð og Sjálfstfl. lofa, gleymdi að nefna þetta í ræðu sinni áðan. Það skorti allt samstarf, það samstarf sem búið var að minnast á, sem búið var að lofa. Það hefur skort allan þennan tíma. Þetta gat ekki farið vel. Þetta hlaut að enda með ósköpum. Það kann aldrei góðri lukku að stýra þegar lítil klíka valdhafa fellur í þá freistingu að ætla í skjóli myrkurs og án nokkurs samráðs að koma á löggjöf sem neydd er í gegnum löggjafarsamkunduna og ofan í þjóðina. Svona gera menn ekki.

Ágætu Íslendingar. Þessu mega landsmenn ekki gleyma fyrir næstu kosningar og veita þá bæði Sjálfstfl. og Framsfl. þá ráðningu sem þeir flokkar eiga skilið.

Fyrir hönd Frjálsl. óska ég landsmönnum öllum góðs og gæfuríks sumars.