Almennar stjórnmálaumræður

Mánudaginn 24. maí 2004, kl. 20:49:57 (8873)

2004-05-24 20:49:57# 130. lþ. 124.1 fundur 587#B almennar stjórnmálaumræður#, menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 130. lþ.

[20:49]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Umræða um fjölmiðla hefur sett verulegt mark á það þing sem fer senn að ljúka. Í skýrslu fjölmiðlanefndarinnar svokölluðu kemur fram að íslenski fjölmiðlamarkaðurinn ber augljós einkenni samþjöppunar þegar horft er til eignarhalds á fjölmiðlum og raunar er líklega engin dæmi að finna í hinum vestræna heimi um jafnmikla samþjöppun í eignarhaldi á fjölmiðlum og hér á landi.

Rökin fyrir að hið lýðræðislega kjörna Alþingi samþykkti í dag lög um eignarhald á fjölmiðlum eru margvísleg. Hafa ýmis orð fallið, með leyfi forseta:

,,Fjölmiðlar eru ein af meginstoðum lýðræðislegrar stjórnskipunar. Þeir eru hið svokallaða fjórða vald og að margra mati jafnvel hið öflugasta í nútímasamfélagi. Það ætti reyndar að vera óþarft að fjölyrða hér á hinu háa Alþingi um mikilvægi þess að í fjölmiðlum ríki fjölbreytni og að tjáningarfrelsi fjölmiðla verði ekki hneppt eða bundið á klafa hagsmuna eða viðskiptablokka. [...] Samþjöppun eigna og valds á þessu sviði þjóðfélagsins getur nefnilega orðið lýðræðinu varasöm og sama þróun gæti í rauninni leitt til þess að allir fjölmiðlar í landinu fyrir utan Ríkisútvarpið kæmust á sömu hendur ...``

,,Það er sérstaklega varhugavert ef umsvifamiklir aðilar í viðskiptum, sem jafnvel starfa í fákeppnisumhverfi þar, gerast jafnframt fjölmiðlakóngar. Þá er stutt í hið rússneska ástand, íslenska ,,ólígarka``, nýríka viðskiptajöfra sem eru jafnframt með fjölmiðla eða fjölmiðlakeðjur á sínum höndum til að reka áróður fyrir umsvifum og störfum sínum.``

,,Ég tel það mjög óæskilegt og ekki eðlilegt [...] að aðilar í atvinnugreinum hvort sem það eru sterkustu aðilarnir í sjávarútvegi, sterkustu aðilarnir í verslun eða þeir sem núna hafa eignast íslenska bankakerfið --- að slíkir aðilar geti bundist jafnvel samtökum um að eiga fjölmiðla.``

,,Fákeppni og samþjöppun valds er líka að verða meira áberandi í fjölmiðlastarfsemi, sem er vissulega mjög varhugavert fyrir lýðræðið og eðlilega skoðanamyndun í landinu.``

Þessi rök hljóma eflaust öll kunnuglega eftir umræður síðustu vikna, sem hafa verið einhverjar þær lengstu í þingsögunni. Hart hefur verið deilt um þetta mál og ríkisstjórnin sökuð um að ætla að kæfa fjölmiðlafrelsi í landinu.

Þau rök sem ég rakti hér á undan eru hins vegar öll orðrétt ummæli hv. þingmanna úr flokkum stjórnarandstöðunnar, Vinstri grænna, Samf. og Frjálsl. Er nema von að menn spyrji hvað valdi þessum umskiptum í afstöðu þeirra, af hverju þessi umpólun, af hverju þetta lýðskrum, af hverju þessi vingulsháttur, hv. þm. Össur Skarphéðinsson og Magnús Þór Hafsteinsson?

Í þessu máli öllu skiptir að mínu mati eftirfarandi mestu máli:

Í kringum síðustu áramót stóðum við frammi fyrir gjörbreyttu landslagi á íslenska fjölmiðlamarkaðnum. Á örskömmum tíma var samþjöppun í eignarhaldi fjölmiðla orðin meiri en nokkur dæmi eru um annars staðar. Stjórnmálamenn urðu að spyrja þeirrar samviskuspurningar hvort rétt væri að bregðast við líkt og gert hefur verið í nær öllum vestrænum ríkjum, hvort sem litið er austur yfir haf eða vestur. Eða ætluðu menn að láta þessa þróun óáreitta og eiga þá jafnvel á hættu enn frekari samþjöppun eignarhalds í framtíðinni?

Í fyrrnefndri fjölmiðlaskýrslu sem flestir hér inni hafa básúnað fyrir að vera fagleg og vel unnin segir skýrlega að núverandi ástand á fjölmiðlamarkaði sé óviðunandi þegar kemur að eignarhaldi á fjölmiðlum og við því þurfi að bregðast. Flóknara er það ekki og allt annað er útúrsnúningur af hálfu stjórnarandstöðunnar til að fela eigið ístöðuleysi, eigin viðsnúning og eigið dugleysi.

Herra forseti. Þegar horft er til framtíðar eru flestir sammála um að menntunarstig þjóða muni ráða úrslitum um velferð þeirra og velmegun. Þar hefur á undanförnum árum verið búið vel í haginn fyrir komandi kynslóðir. Tölurnar eru sláandi. Frá árinu 2000 hefur til að mynda nemendum á háskólastigi fjölgað um hátt í 50%. Framlög ríkisins til háskólanna á fjárlögum hafa haldist í hendur við þessa þróun. Ég dreg í efa að annars staðar sé að finna jafnmikla ásókn í menntun og við höfum staðið frammi fyrir hér á landi á síðustu árum, ekki síst þegar haft er í huga að þegar árið 2000 vorum við í hópi þeirra þjóða þar sem hvað flestir stunda háskólanám. Þá voru tæplega 33% Íslendinga á aldrinum 30--34 ára með háskólapróf sem er svipaður fjöldi og í Danmörku og Svíþjóð en töluvert hærra hlutfall en í Finnlandi, að ekki sé minnst á blessað Evrópusambandið þar sem meðaltalið er um 24%.

Ástæðurnar fyrir þessari jákvæðu þróun eru margvíslegar. Í fyrsta lagi eru kröfur samfélagsins og atvinnulífsins um menntun sífellt að aukast. Í öðru lagi hafa stjórnvöld á síðustu árum búið í haginn fyrir mun fjölbreyttari flóru skóla á háskólastiginu. Samkeppni á milli háskólanna hefur orðið til að efla þá til dáða og ég fullyrði að aldrei hefur hið akademíska líf staðið í jafnmiklum blóma á Íslandi og nú.

Þessi þróun hefur síður en svo verið bundin við suðvesturhornið einvörðungu. Á Akureyri hefur fjöldi nemenda í háskólanum meira en tvöfaldast á síðustu fimm árum og er Háskólinn á Akureyri orðinn ein af meginstoðum háskólakerfisins í landinu.

Mikið hefur áunnist í menntamálum á síðustu árum. Viðfangsefnin eru hins vegar fjölmörg. Ekki síst er brýnt á næstu árum að sjá til þess að sú mikla útþensla er orðið hefur í háskólakerfinu á stuttum tíma verði ekki á kostnað gæða þegar fram líða stundir. Það sama gildir um háskólanám og flest annað, magn er ekki það sama og gæði.

Verkefnin frá leikskóla til háskóla eru einnig mörg. Bráðlega mun liggja fyrir niðurstaða af því hvort og þá hvernig eigi að stytta námstímann til stúdentsprófs. Ég hef lagt á það áherslu að skoða eigi skólakerfið í heild sinni og að gætt verði að því að það einkennist áfram af sveigjanleika, sveigjanleika sem veiti sigrúm fyrir mismunandi kröfur og þarfir einstaklinganna og fjölskyldnanna í landinu.

Herra forseti. Framlög hins opinbera hér á landi til menningarmála eru með því allra mesta miðað við þær þjóðir sem við berum okkur helst saman við. Með tónlistarsjóði --- en frv. um stofnun hans er nú til meðferðar hér á Alþingi --- stendur til að efla enn frekar stuðning við tónlistarlíf í landinu, bæði þá tónlist sem sögð er sígild og þá sem stundum er kennd við dægurmenningu.

Myndlist okkar á ekki einungis erindi við okkur, heldur heiminn allan. Það er von mín að með Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar sem nýlega tók til starfa takist að efla enn frekar tengsl myndlistarinnar við hinn alþjóðlega listaheim sem við erum órjúfanlegur hluti af. Hin íslenska myndlist er ríkur þáttur í sjálfsmynd þjóðarinnar. Í verkum jafnt hinna gömlu meistara sem listamanna nútímans endurspeglast landið okkar og samfélagið eins og við sjáum það hverju sinni. Það skiptir því miklu að við skilum menningararfinum óbrengluðum til komandi kynslóða með tilhlýðilegri virðingu fyrir þeim sem hafa hjálpað okkur að skapa hann og móta.

Sú óvissa sem nú ríkir t.d. um höfundarverk margra af okkar þekktustu myndlistarmönnum er óviðunandi og við hana er ekki hægt að búa til lengdar. Auðlegð þjóða felst í ýmsu en einhver dýrmætasta eign hverrar þjóðar og það sem skiptir hvað mestu upp á framtíðina er menning hennar og menningararfleifð. Um þá arfleifð verðum við að standa vörð jafnt í stóru sem smáu.