Almennar stjórnmálaumræður

Mánudaginn 24. maí 2004, kl. 20:57:54 (8874)

2004-05-24 20:57:54# 130. lþ. 124.1 fundur 587#B almennar stjórnmálaumræður#, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 130. lþ.

[20:57]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Fyrsta ár endurnýjaðs samstarfs ríkisstjórnar Framsfl. og Sjálfstfl. er um margt eftirtektarvert og þá ekki síst fyrir að smám saman hefur það orðið ljóst að á löngum valdatíma þessara flokka hefur lýðræðislegum vinnubrögðum verið ýtt til hliðar í krafti þingræðis. Það er meiri hlutinn hér á Alþingi sem ræður, eins og sagt er. Jafnframt hefur framkvæmdarvaldið í krafti langrar stjórnarsetu og þingmeirihluta aukið vald sitt á kostnað Alþingis. Þá er ljóst að veik staða Framsfl. ásamt því að formaður flokksins er upptekinn af því að eiga að taka við stjórnartaumunum næsta haust hefur haft gífurleg áhrif á áherslur og störf ríkisstjórnarinnar og sett ótvírætt mark á þinghaldið í vetur, einkum nú síðustu vikurnar.

En hvernig gengur þessum flokkum að efna kosningaloforðin og framfylgja ársgamalli stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, stefnuyfirlýsingu sem byggðist á öflugum og áframhaldandi hagvexti og sölu ríkiseigna, loforð um bætta þjónustu í heilbrigðiskerfinu, uppbyggingu menntakerfisins samfara uppbyggingu atvinnulífsins og aukinni velferð samfara stórfelldum skattalækkunum? Ekkert virðist ganga eftir af þessum nýgefnu kosningaloforðum og er nú ríkisstjórnin meðal manna kölluð ríkisstjórn hinna sviknu loforða.

Það þarf engan að undra. Spilaborgin gat ekki haldið. Hvað ætli fólki haldi, til að mynda íbúar Djúpavogs, og segi um fyrirheitin um að styrkja hagsmuni sjávarbyggða með sérstökum aðgerðum í ljósi nýjustu frétta um stórfelldar uppsagnir í byggðarlaginu? Eða hvernig finnst mönnum staða byggðanna yfirleitt vera í dag? Hver er hin raunverulega byggðastefna núverandi ríkisstjórnar?

[21:00]

Upplýsingasamfélagið er að mestu bundið við stærri þéttbýliskjarna. Framhaldsskólarnir eiga í miklum rekstrarerfiðleikum og verknám er á undanhaldi. Þó viðurkenna allir að aukin menntun sé besta leiðin til að efla búsetu um land allt. Stefnan virðist vera að styrkja eigi einstaka byggðarkjarna en hinar dreifðu byggðir verða afgangsstærðir. Ofan á þetta bætist að sveitarfélögin eiga við mikla fjárhagserfiðleika að etja og virðist lítill skilningur hjá stjórnvöldum eða vilji til að koma til móts við þann vanda.

Nú við upphaf byggingar Kárahnjúkavirkjunar og stóriðjuframkvæmda á Austurlandi hefur bjartsýni og framkvæmdagleði aukist hjá mörgum á Miðausturlandi sem eðlilegt er. En nú þegar hafa þessi miklu umsvif haft neikvæð áhrif á minni fyrirtæki og þá einkum fyrirtæki í rekstri kvenna. Það þarf meira en að rannsaka áhrif þessara stóriðjuframkvæmda. Það verður nú þegar að bregðast við þeim neikvæðu áhrifum sem þegar hafa komið í ljós. Það er ekki nóg að rannsaka. Það þarf líka að bregðast við.

Það er staðreynd að lausnir á borð við þær sem núverandi ríkisstjórn býður upp á í byggðamálum draga úr fjölbreyttu atvinnulífi, það er að segja öðru en því sem þjónar risavöxnum vinnustað í fámennum sveitarfélögum. Margt af því sem gagnrýnendur þessara stórframkvæmda óttuðust og vöruðu við hefur þegar komið á daginn og á eftir að koma enn frekar í ljós. Það verður því miður ekki allt til farsældar.

Góðir áheyrendur. Við höfum fram til þessa talið að við byggjum við gott og öruggt velferðarkerfi og heilbrigðisþjónustan hefur verið talin ein sú fremsta sem völ er á. Framsóknarflokkurinn hefur borið ábyrgð á heilbrigðismálunum árum saman og okkur er talin trú um að ekki sé verið að einkavæða þessa mikilvægu samfélagsþjónustu, það sé eingöngu verið að koma einstaka starfsemi í einkarekstur því það verði að spara í ríkisrekstrinum. Undir þessum formerkjum er heilbrigðisstofnunum landsins og þá sérstaklega Landspítala -- háskólasjúkrahúsi skammtað svo naumt á fjárlögum að annaðhvort verða þær að draga úr starfsemi eða koma henni af sér og þá helst til einkaaðila. Með þessu er verið að mola niður þá heilbrigðisþjónustu sem við höfum byggt upp sem samfélagsþjónustu.

En hvað gengur mönnum til? Eru einhverjar ástæður fyrir því að veikja eitt öflugasta heilbrigðiskerfi í veröldinni? Jú, það er ein ástæða. Í heilbrigðisþjónustunni er mikið fjármagn sem margir vilja komast í. Einkarekstur eykst því í takt við kröfur um sparnað í opinberri heilbrigðisþjónustu og lækkun ríkisútgjalda. En verður heilbrigðisþjónustan ódýrari í einkarekstri og verður þjóðhagslegur sparnaður þegar til lengri tíma er litið? Nei, þjónustan verður dýrari en sjúklingarnir borga mismuninn. Það hafa ekki allir efni á því að verða veikir í velferðarþjónustu ríkisstjórnarflokkanna í dag. Einkarekstur og einkavæðing skapar óréttlátt heilbrigðiskerfi. Skattaloforðin eru til þess fallin að einkavæða heilbrigðisþjónustuna með enn skýrari hætti en ríkisstjórnin hefur þorað að sýna fram til þessa.

Góðir hlustendur. Ég þakka áheyrnina. Gleðilegt sumar.