Almennar stjórnmálaumræður

Mánudaginn 24. maí 2004, kl. 21:15:22 (8877)

2004-05-24 21:15:22# 130. lþ. 124.1 fundur 587#B almennar stjórnmálaumræður#, KLM
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 130. lþ.

[21:15]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Halldór Ásgrímsson utanrrh. kallar eftir stefnu okkar samfylkingarmanna í fjölmiðlamálinu. Stefna okkar hefur verið margskýrð á hinu háa Alþingi en það er eðlilegt að Halldór Ásgrímsson kalli eftir henni vegna þess að hann hefur ekki verið svo mikið í þessari umræðu, skrapp hingað rétt í 26 mínútna ræðu og hvarf fljótlega á brott. Stefna Samf. kom vel fram í þeirri umræðu.

Undanfarnar vikur hafa landsmenn hins vegar horft og hlustað agndofa á hvernig forustumenn ríkisstjórnarinnar drottna, hvernig þeir lítilsvirða þingmenn í eigin þingflokkum að ekki sé talað um þingið sjálft. Frumvörpum er nánast kastað inn á þing og sagt: Afgreiðið þetta og það strax. Þingnefndir sem fjalla eiga um mál fá engu um ráðið, fá ekki einu sinni að gera tillögur um breytingar, heldur koma stjórnarherrarnir saman á morgunfundum í Stjórnarráðinu og ákveða hverju skuli breyta og hvernig. Hvílík vanvirða og hvílík hneisa fyrir Alþingi Íslendinga.

Nú er eitt ár liðið frá síðustu kosningum og samkvæmt síðustu skoðanakönnunum hefur komið í ljós að margir iðrast þess að hafa greitt stjórnarflokkunum atkvæði. Þeir eru ósammála þeirri gömlu speki að sérhver þjóð fái þá stjórn sem hún á skilið. Ákvörðun um að leggja fram fjölmiðlafrv., innihald þess og hrossakaup forustumanna í því máli, svo ekki sé minnst á ákvörðun þeirra um þátttöku Íslendinga í stríðinu í Írak fyrir rúmu ári og allri þeirri skömm sem því stríði fylgir, sýnir að formannaeinræði tíðkast í Sjálfstfl. og Framsfl., og þingmenn stjórnarflokkanna eru í þeirri aumkunarverðu stöðu að taka við tilskipunum formanna sinna og þeir sem ekki hlýða geta ekki gert sér vonir um frama. Heldur leggst nú lítið fyrir kappana.

,,Ég á mér draum``, sagði Martin Luther King einu sinni. Margir Íslendingar eiga sér þann draum að málefni sem skipta miklu fyrir þjóðina komi oftar til umræðu en raun er á og að sú umræða geti leitt af sér einhverjar vitrænar niðurstöður landsmönnum og þjóðinni til heilla.

Lítil umræða er um málefni landsbyggðar á Alþingi og nær eingöngu þegar alvarlegir hlutir eru að gerast, svo sem þegar fyrirtæki eru að leggja upp laupana vegna samdráttar eða rekstrarerfiðleika, en ekki til að fyrirbyggja vandræði. Slíkar fyrirbyggjandi aðgerðir eða tillögur um uppbyggingu eða framþróun eru ekki á dagskrá ef undan er skilin ákvörðun um byggingu álvers og virkjunar á Miðausturlandi sem ætti að vera góð fyrirmynd þess hversu jákvæð áhrif slík ákvörðun um staðsetningu fyrirtækja og atvinnurekstrar hefur.

Iðnrh. sem er um leið ráðherra byggðamála og utanrrh. sem formaður Framsfl. fyrtast við umræðu okkar um byggðamál. Hugtakið byggðamál finnst ekki í orðaforða ráðherra Sjálfstfl. enda eru þeir nær allir ráðherrar suðvesturhornsins og skilja ekki hvernig hjörtu manna slá á landsbyggðinni. Ekkert bólar á tillögum um lækkun flutningskostnaðar eins og margoft hefur verið lofað af ráðherrum og ríkisstjórn. Ríkisstjórnin hefur greinilega eitthvað misskilið málið því að hún hefur stuðlað að enn frekari hækkun flutningskostnaðar og þar með enn skekkt rekstrarskilyrði fyrirtækja á landsbyggðinni og dregið úr samkeppnishæfni þeirra.

Boðskapur í limru sem varð fleyg fyrir nokkrum árum á því miður vel við, með leyfi forseta:

  • Að hreykja sér hátt, það er siður
  • sem sést hérna stundum, því miður.
  • Það er glæsilegt oft
  • ef menn gnæfa við loft.
  • Hitt er slæmt, ef þeir ná ekki niður.
  • Og enn á að hækka skatta á landsbyggðarfólk með upptöku olíugjalds. Hvernig væri að stíga niður til raunveruleikans, virðulegu ráðherrar.

    Herra forseti. Í sjávarútvegsmálum stendur líka yfir árás á lífskjör landsbyggðarfólks, byggðakvótum og krókaaflamarkspottum er slátrað og dagabátakerfið verður væntanlega lagt af nú í vikunni. Samþykkt línuívilnunar fyrir jól er grátbroslegur brandari og lítið gagn að nema sem skrauti í fiskveiðistjórnarlögunum. Allt eru þetta ákvarðanir sem skapa enn frekari erfiðleika í ýmsum sjávarplássum landsbyggðarinnar. Höfuðatvinnuvegur landsbyggðarinnar, sjávarútvegur, á í erfiðleikum vegna hágengis og verðfalls erlendis. Við Íslendingar erum fremstir í flokki hvað varðar veiðar og vinnslu en einhver verður að kaupa afurðir okkar á verði sem við þurfum að fá fyrir okkar lífskjör. Breytingar á mörkuðum erlendis kalla á endurskoðun á sjávarútvegsstefnu okkar og það gerir líka óþolandi samdráttur víða á landsbyggðinni.

    Góðir hlustendur. Það er margt fleira sem þarf að leiðrétta. Háskólinn á Akureyri og framhaldsskólar á landsbyggðinni eru í fjársvelti og þurfa að beita fjöldatakmörkunum og vísa nemendum sínum frá skólagöngu í héraði, hæstv. menntmrh. Hver sagði eiginlega að góð almenn menntun væri besta fjárfesting okkar? Tekjustofnar sveitarfélaga standa engan veginn undir lögbundinni þjónustu sem kemur m.a. niður á rekstri grunnskóla þeirra.

    ,,Við hjálpum þér að láta það gerast``, er slagorð Símans. En háhraðatengingar eru ekki í boði hjá Símanum í fjölmörgum byggðarlögum landsbyggðarinnar. Það er ekki arðbært fyrir Símann segja ráðherrarnir. Varla er það til að efla byggð eða til að bæta líf og tilveru landsbyggðarfólks. Meira að segja fjölmiðlafrv. margrædda og illræmda mun koma fyrst niður á landsbyggðarfólki með samdrætti og/eða lokun ýmissa senda víða um land.

    Virðulegi forseti. Atvinnusamdráttur og fólksfækkun á landsbyggðinni er ekki vandi landsbyggðarinnar heldur vandi þjóðarinnar. Af hverju lokar ríkisstjórnin augum og eyrum í þeim málaflokki? Hversu mikið þarf landsbyggðarfólk að gjalda fyrir búsetu sína?

    Herra forseti. Góðir hlustendur. Ríkisstjórnin lofaði skattalækkun strax eftir kosningar, síðustu kosningar, þær sem voru síðasta sumar, bara ef hún yrði endurkosin. Það er ótrúlegt að skammtímaminnið skuli bila samtímis í þeim öllum. Skattar hafa ekki lækkað, þeir hafa hækkað. Bensínskattur, þungaskattur, olíugjald, lyfjakostnaður almennings, allt hækkar, en aftur á móti hafa vaxtabætur til almennings verið lækkaðar.

    Eins og ljóslega hefur komið fram að undanförnu er stjórnin að fara á límingum og ekkert heldur henni saman nema stólar ráðherranna og þá alveg sérstaklega væntanlegur forsætisráðherrastóll fyrir formann Framsfl. Pirringur og þreyta hafa verið áberandi og samt er bara eitt ár búið af kjörtímabilinu. Forsrh. Davíð Oddsson hefur heldur hert takið á formanni Framsóknar og framsóknarþingmenn verða að kokgleypa allt sem frá Sjálfstfl. kemur. Já, það er bjart fram undan, Halldór Ásgrímsson utanrrh.

    Niðurskurður á ýmsum sviðum hefur verið aðalsmerki stjórnarinnar og þá helst í þeim málaflokkum sem ekki mega við því. Nú er komið að niðurskurði hjá Framsókn og sex ráðherrar þess flokks þora ekkert að segja eða gera vegna þess að þeim á að fækka um einn. Hræðslan við niðurskurðinn fer ekki fram hjá neinum. Herra forseti. Það er aumt hlutverk Framsóknar um þessar mundir og framsóknarmönnum er að sumu leyti vorkunn þótt þeir hafi samþykkt leikreglurnar. Þrá formanns flokksins eftir stóli forsrh. er mikil og hefur blindað flokksmönnum sýn. Þeir eru eins og strengjabrúður og sá sem heldur í strengina ræður öllum hreyfingum þeirra og gjörðum. Oft þarf meira hugrekki til að breyta um skoðun en halda henni. Það hugrekki virðist marga vanta.

    Hæstv. forseti. Góðir landsmenn nær og fjær. Samf. vill vinna með fólki og fyrirtækjum, ekki gegn þeim. Samf. hefur sýnt í verki staðfestu og skynsemi, hún er réttsýn og sanngjörn. Væri slíkur flokkur í forustu ríkisstjórnar værum við laus við andrúmsloft heiftar og ótta. Samf. sameinar fólk til góðra verka, leiðir saman unga og aldna, konur og karla undir merkjum jafnréttis, frelsis og bræðralags þjóðinni allri til heilla.

    Ég þakka þeim sem á hlýddu. Góðar stundir.