Almennar stjórnmálaumræður

Mánudaginn 24. maí 2004, kl. 21:43:52 (8881)

2004-05-24 21:43:52# 130. lþ. 124.1 fundur 587#B almennar stjórnmálaumræður#, GAK
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 130. lþ.

[21:43]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Fjöldamörg mál hafa verið til umræðu á Alþingi þótt umræðuna um stöðu lýðræðisins, tengt frjálsri fjölmiðlun, prentfrelsi og atvinnuöryggi starfsmanna fjölmiðla, hafi borið hæst að undanförnu. Þau ólög sem samþykkt voru fyrr í dag með naumum meiri hluta atkvæða ríkisstjórnarþingmanna verða dæmd af þjóðinni. Vonandi með virku lýðræði þar sem Íslendingum gefst kostur á að taka beina afstöðu sem fyrst.

Sú háskalega staðreynd blasir við og yfirgnæfir allt annað að framkvæmdarvaldið er að hrifsa til sín öll völd í landinu. Stjórnarliðar eru undrandi á því að stjórnarandstaðan lýtur ekki boðvaldi tvíeykis Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar. Við erum ekki skósveinar þeirra ólýðræðislegu vinnubragða sem eru hlutskipti stjórnarþingmanna. Lýðræðið er verðmætt, lýðræðið þarf sinn tíma. Því hefur tvíeykið varanlega gleymt.

Alþingi er orðin undirgefin afgreiðslustofnun framkvæmdarvaldsins vegna þess að þingmenn stjórnarflokkanna beygja sig í einu og öllu fyrir valdamönnum flokka sinna. Þeim er seint ofboðið eins og nýjasta dæmið sannar svo rækilega.

Alvarlegt brot á lýðræðislegum vinnubrögðum er ákvörðun forsrh. og utanrrh. um staðfasta aðild að stríðinu í Írak. Þar er gengið gegn yfirlýstum og samþykktum markmiðum okkar við inngöngu í NATO, að bera aldrei vopn með tilgangi árásar á aðra þjóð. Ábyrgð hinna staðföstu er mikil á þeim hörmungum sem við sjáum daglega sem afleiðingar stríðs og haturs.

Hér heima setjum við lög sem lítilsvirða rétt útlendinga sem giftir eru íslenskum ríkisborgurum og við vinnum gegn sameiningu fjölskyldna þeirra. Forustumenn ríkisstjórnarinnar sýna einræðistilburði og taka aftur og aftur þá áhættu að ganga á svig við stjórnarskrá. Dómsmrh. Björn Bjarnason vill hlerun símtala án dómsúrskurðar og telur allar sínar vafasömu embættisveitingar hafnar yfir gagnrýni.

Mörg verkefni bíða okkar. Góðar samgöngur og bætt umferðaröryggi skilar sér fljótt í bættum hag landsmanna og auka möguleika vaxandi ferðaþjónustu á landinu.

Efla þarf framhaldsmenntun á landsbyggðinni sem jafnframt styrkir byggðir og eflir mannlíf og menningu landsmanna. Það er mikils virði að halda landinu í byggð. Ísland framtíðarinnar er ferðamannaland sem verður okkur öllum til gæfu. Það kostar eitthvað að halda landinu í byggð.

Ríkisstjórnin hefur síðustu níu ár unnið markvisst að því með lagasetningu á Alþingi að kljúfa þjóðina í andstæðar fylkingar þeirra sem fengið hafa eignir og völd og hinna sem eftir sitja. Hluti landsmanna er nú orðinn ofurríkur og verslar á degi hverjum með milljónir og jafnvel milljarða. Bankar græða sem aldrei fyrr og skipta upp eignum fyrirtækja eins og þjónar hagsmunum þeirra. Aðeins tíu fyrirtæki eiga nú yfir 50% af óveiddum fiski í sjónum og leiguliðar greiða þeim hátt verð fyrir veiðiréttinn. Sjómenn borga veiðiréttarhöfum fyrir svo þeir fái að stunda atvinnu sína. Laun þeirra lækka sem veiðigjaldinu nemur.

Allt eru þetta verk ríkisstjórnarinnar sem samþykkt hefur kvótalögin og gert þau þannig úr garði að þetta fyrirkomulag vistarbandsins er nú aftur orðið löglegt. Það er löggjöfin sem ríkisstjórnin ákveður sem býr til leigu- og sölukvóta í fiski og landbúnaðarkvótinn í mjólk heftir nú endurnýjun í sveitum landsins. Störfum og fólki fækkar víða á landsbyggðinni. Atvinnuréttur í dreifðum byggðum er fólkinu þar mikils virði eins og fólkinu á fjölmiðlunum er þeirra atvinnuréttur og afkomuöryggi. Afleiðingarnar fyrir landsbyggðarfólk sem á húseign í atvinnulausu plássi eru þó miklu verri þar sem ævisparnaður flestra er húsnæðið sem fjölskyldan býr í. Enn á ný skal kvótasetja og afleggja sóknardagakerfi smábátanna þar sem hver og einn á val um milljónatugi í framseljanlegum kvótum en hinn valkosturinn um sóknardaga gerður eins vondur og kostur er.

Lýðréttindi fólksins til atvinnu í sjávarbyggðum eru stjórnvöldum einskis virði. Annað verður ekki ráðið af verkum þeirra því nú skal veiðireynsla trillusjómanna seld hæstbjóðanda. Kosningaloforð stjórnarþingmanna um réttlæti og sanngirni eru gleymd. Fólk í fyrirrúmi er líka gleymt.

Herra forseti. Ég óska íslenskri þjóð gæfu og gengis á komandi sumarmánuðum og vona að hún megi njóta hamingjusamra daga og bið fólk vel að lifa og ganga á guðs vegum.