Ráðning landvarða

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 10:04:14 (8883)

2004-05-25 10:04:14# 130. lþ. 125.91 fundur 588#B ráðning landvarða# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[10:04]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Þann 19. júlí í fyrra flögguðu nokkrir landverðir á hálendi Íslands íslenska fánanum í hálfa stöng til að leggja áherslu á hryggð sína yfir óafturkræfum náttúruspjöllum við Kárahnjúka. Ekki stóð á viðbrögðum frá yfirvöldum umhverfismála. Þegar í stað var farið að hafa í hótunum við fólkið og einn landvörður sérstaklega tekinn út úr og hótað að hún mundi fá áminningu sem, eins og kunnugt er, er fyrsta skrefið í að segja fólki upp störfum. Hún sneri sér til verkalýðsfélags síns og lögfræðingur þess ritaði álitsgerð sem Umhverfisstofnun svaraði síðan 4. nóvember. Þar segir m.a.:

,,Af hálfu Umhverfisstofnunar skal í upphafi tekið fram að málatilbúnaði, skýringum og túlkunum sem fram kom í áðurnefndu bréfi lögmanns er alfarið mótmælt. Þá er skýringum og túlkunum sem fram komu í sama bréfi enn fremur mótmælt. Er það afstaða Umhverfisstofnunar að tilgreint háttalag þitt í starfi hafi verið ámælisvert og ósamrýmanlegt því starfi sem þú hafðir með höndum. Í dæmaskyni má nefna að af bréfi lögmanns þíns verður ráðið að viðbrögð þín sem yfirmanns við aðgerðum undirmanna í tengslum við nefndan atburð voru með öllu óásættanleg.``

Hér er vísað í fánamálið og í niðurlagi bréfsins segir, með leyfi forseta:

,,Það tilkynnist hér með að Umhverfisstofnun hefur ákveðið að aðhafast ekki frekar í máli þessu, m.a. þar sem stofnunin er að vinna að skýrari starfslýsingum og verklagsreglum fyrir landverði. Þessar starfslýsingar og verklagsreglur eiga að kveða með afdráttarlausari hætti en áður á um réttindi og skyldur landvarða. Af hálfu Umhverfisstofnunar skal þó áréttað að tilgreind framkoma þín var að mati stofnunarinnar mjög ámælisverð og ósamrýmanleg því starfi sem þú hafðir með höndum.``

Þetta voru viðbrögð við erindi lögfræðings viðkomandi landvarðar.

Núna kemur hins vegar í ljós að þeir landverðir sem tóku þátt í þessum aðgerðum fá ekki ráðningu. Boð voru látin berast til hlutaðeigandi og einum landverði sem ég hef rætt við var sagt að hann fengi ekki starf. (Forseti hringir.) Þetta er mjög alvarlegur atburður, þetta er mjög alvarlegt mál og hæstv. umhvrh. verður að skýra (Forseti hringir.) þinginu frá því hvers vegna þetta fólk er látið sæta ofsóknum.