Ráðning landvarða

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 10:13:22 (8887)

2004-05-25 10:13:22# 130. lþ. 125.91 fundur 588#B ráðning landvarða# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[10:13]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það má ráða af atburðum síðustu daga að tjáningarfrelsið er ekki sá þáttur frelsisins sem þessari ríkisstjórn er umhugaðast um. Það hefur komið fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að landverðir sem notfæra sér tjáningarfrelsið með því að reisa sinn eigin íslenska fána á sínar eigin fánastengur til að mótmæla virkjun við Kárahnjúka, sem ég studdi á sínum tíma, hafi sætt óæskilegum viðbrögðum af hálfu Umhverfisstofnunar. Hæstv. umhvrh. neitar þessu. Ég tel mjög auðvelt fyrir hæstv. umhvrh. að leysa úr þessum hnút og skýra fyrir okkur hvað það er sem forstjóri Umhverfisstofnunar á við í bréfi sínu til a.m.k. eins landvarðar þar sem hann segir, með leyfi forseta:

,,Er það afstaða Umhverfisstofnunar að tilgreint háttalag þitt í starfi hafi verið ámælisvert og ósamrýmanlegt því starfi sem þú hafðir með höndum. Í dæmaskyni má nefna að af bréfi lögmanns þíns verður ráðið að viðbrögð þín sem yfirmanns við aðgerðum undirmanna í tengslum við nefndan atburð voru með öllu óásættanleg.``

Ég spyr hæstv. umhvrh.: Hvað er átt við með orðunum ,,tilgreint háttalag`` og hvaða atburður er það sem verið er að vísa í þegar nefnt er ,,í tengslum við nefndan atburð``? Er það heising fánans á fánastengur í mótmælaskyni við Kárahnjúka? Ef svarið er já hefur hv. þm. Ögmundur Jónasson augljóslega rétt fyrir sér. Þá er verið að beita starfsmennina ósæmilegum viðurlögum. Nú liggur það í kjöltu hæstv. umhvrh. að leysa hnútinn og skýra þetta tvennt: Hvert er þetta tilgreinda háttalag og hver var þessi atburður?