Ráðning landvarða

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 10:17:51 (8889)

2004-05-25 10:17:51# 130. lþ. 125.91 fundur 588#B ráðning landvarða# (aths. um störf þingsins), SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[10:17]

Sigurjón Þórðarson:

Herra forseti. Hér er um alvarlegar ásakanir að ræða. Mér finnast skýringar hæstv. ráðherra mjög ótrúverðugar. Hún verður að gera hreinna fyrir sínum dyrum. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem upp koma ásakanir um það að menn séu látnir líða fyrir skoðanir sínar. Ég veit ekki betur en að mál hafi komið upp varðandi Rannsóknastöðina við Mývatn þar sem sérfræðingur og prófessor hafði sjálfstæðar skoðanir. Hann var settur út úr stjórn og inn kom forstjóri Umhverfisstofnunar.

Fleiri mál hafa komið upp sem ekki hafa komist í hámæli, svo sem mál sem varðar ríkisstofnun þar sem einn ákveðinn sérfræðingur skrifaði grein um rjúpnaveiði og aðstoðarmaður ráðherra er sagður hafa hringt í forstjóra stofnunarinnar og skammast yfir því að sérfræðingurinn væri að rita í blöð um þetta áhugamál sitt. Ég tel að ráðherrann ætti að sjá sóma sinn í því að gera nákvæmlega grein fyrir því hvernig á þessu máli standi. Það hlýtur að vera krafa almennings að menn hegði sér ekki svona, sérstaklega vegna þess að dæmin sýna í nokkrum málum að líkur eru fyrir því að hún hafi beitt óbilgirni gagnvart því og sýnt tjáningarfrelsinu lítilsvirðingu. Ég vona að hún komi hér, hæstv. ráðherra, með trúverðugar skýringar.