Ráðning landvarða

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 10:22:54 (8892)

2004-05-25 10:22:54# 130. lþ. 125.91 fundur 588#B ráðning landvarða# (aths. um störf þingsins), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[10:22]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Manni blöskrar satt best að segja þessi umræða af því að hér halda menn algerum rangindum fram. Hér er verið að reyna að segja við fólk að fimm landverðir sem unnu á umræddu svæði hafi verið reknir (ÖJ: Það var ekki sagt. Hver sagði það?) af því að þeir reistu fána í hálfa stöng. Það var sagt hér að þeir sem höfðu staðið í þessu hefðu ekki verið endurráðnir. Þetta er rangt. (ÖJ: Nú?) Það voru fimm sem voru þarna á svæðinu. Tveir þeirra sóttu ekki um. (ÖJ: Eru þessi skjöl ...?) Tveir þeirra sóttu ekki um. (ÖJ: Eru þessi skjöl hugarburður?) Tveir þeirra voru endurráðnir, tveir sóttu ekki um. Einn fékk ekki vinnu. Þetta er öll staðan.

Tveir þessara landvarða hafa tjáð sig upp á síðkastið, annar í morgun í Morgunblaðinu, hinn í bréfi til mín fyrir viku síðan. Þar er hvergi minnst á þetta fánamál, ekki einu einasta orði í ummælum þeirra. (ÖJ: Það er ég sem er að gera það.) Hvergi minnst á það. (ÖJ: Það eru þingmenn.) Við færðum ráðningarnar heim í hérað. Það var ákveðið að láta heimamenn ráða landverði þannig að þjóðgarðsverðirnir gera það. Í þessu tilviki er það Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir, þjóðgarðsvörður í Jökulsárgljúfrum, sem ræður stafsmennina. Það er ekki umhvrn., það er ekki Umhverfisstofnun heldur þjóðgarðsvörðurinn í Jökulsárgljúfrum, í heimahéraði. Það er hún sem ræður starfsmennina, landverðina. Ég ræddi við hana áðan og það var ekkert í sambandi við þetta fánamál, í sambandi við þessar ráðningar. Hún réð einn af þessum fimm í þjóðgarðinn hjá sér (ÖJ: Hverju svarar ráðherra ...?) þannig að það er algerlega fráleitt að halda því fram að þetta fánamál hafi eitthvað með ráðningarnar að gera. (MÞH: Þið eruð með bréfin.) Það voru tveir endurráðnir, tveir sóttu ekki um, einn fékk ekki vinnu, virðulegur forseti. Þessi er staðan þannig að það að halda einhverju öðru fram er algerlega fráleitt eins og hér hefur komið fram.