Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 10:37:29 (8898)

2004-05-25 10:37:29# 130. lþ. 125.5 fundur 750. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (dótturfélög sparisjóða, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv. 77/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[10:37]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að meiri hlutinn hafi ekki nokkra hugmynd um hvað hann er að leggja til, a.m.k. skýrði þessi orðræða hv. þm. ekki málið fyrir mér. Það kann að vera að ég sé ekki jafngreindur og hann, en ég spyr: Er það ekki rétt hjá mér að þegar menn eru kvaddir til skattrannsóknarstjóra hafi þeir réttarstöðu grunaðs manns ef um er að ræða alvarlega rannsókn og ef þeirri kvaðningu skattrannsóknarstjóra er ekki beint til tiltekins manns, má þá gera ráð fyrir því að þeir sem eru forsvarsmenn aðila flykkist til að bjóða sig fram til að taka að sér réttarstöðu grunaðs manns? Þetta er náttúrlega alveg út í hött, herra forseti.

Hverjir eru forsvarsmenn lögaðila? Er það fjármálastjóri eða bókhaldari eða gjaldkeri? Er það forstjóri eða framkvæmdastjóri? Þetta er alls óskýrt í frv. Og orðalagið ,,að forfallalausu``, hv. þm. skýrir það svo að það sé ef viðkomandi er á sjúkrahúsi eða erlendis. Af hverju kemur það þá ekki fram í nefndarálitinu? Af hverju er það ekki skilgreint? Ég spyr að gefnu tilefni. Það kom fram hjá skattrannsóknarstjóra að menn hafi beitt alls konar öðrum afsökunum, þeir eigi erfitt með að koma vegna þess, eins og kom fram held ég á fundinum frekar en í samtölum mínum sem ég átti eftir á út af málinu, að þeir hefðu t.d. þurft að sinna börnum sínum og fara með þau í skóla. Það var dæmi sem einhvers staðar var tekið. Ég held því að það sé okkur síst til sóma að leggja til í fyrsta lagi þetta ákvæði, í öðru lagi þessa breytingu sem gerir ákvæðið allt loðnara og óskýrt og sýnir bara að meiri hlutinn hefur ekki fulla sannfæringu fyrir því að fara fram með slíkum þjösnaskap í svona máli. Sér í lagi ef haft er í huga að það var upplýst að einungis tvisvar sinnum á 11 árum hefur þurft að beita valdi af hálfu skattrannsóknarstjóra til þess að draga mann til rannsóknaryfirheyrslu.