Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 10:39:43 (8899)

2004-05-25 10:39:43# 130. lþ. 125.5 fundur 750. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (dótturfélög sparisjóða, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv. 77/2004, Frsm. meiri hluta PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[10:39]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hvað það varðar að nota orðið ,,aðili`` í staðinn fyrir ,,maður`` þá er það til samræmis við lög um meðferð opinberra mála og auk þess þarf skattrannsóknarstjóri að hafa einhver tæki í höndunum til að geta fengið upplýsingar um skattskil. Þetta er jú ekki neitt annað en að fá skýrslugjöf frá viðkomandi aðila.

Það er alltaf einhver aðili sem ber ábyrgð á rekstri fyrirtækja. Fyrst og fremst er það auðvitað stjórn viðkomandi fyrirtækis ef það er hlutafélag en eigandi ef það er sameignarfélag. Fyrirtækinu ber að tilkynna einhvern ábyrgðaraðila og það er sá aðili sem mætir til skýrslugjafar eða tilnefnir einhvern annan til að mæta fyrir sig, t.d. bókara eða einhvern slíkan. Það á því að vera alveg á hreinu hver mætir fyrir fyrirtækið.

Varðandi orðalagið ,,að forfallalausu`` þá var ákvæðið eins og það var áður mjög ósanngjarnt vegna þess að menn gátu virkilega verið forfallaðir en fengið kröfu um að mæta og þar sem þeir gátu ekki mætt og voru forfallaðir fengu þeir samt sem áður kröfu um að vera færðir til skattrannsóknarstjóra til skýrslugjafar með lögregluvaldi. Það þótti því eðlilegt að setja inn slíkt ákvæði. Auðvitað er það óljóst, auðvitað er matskennt hvað eru forföll. Eru það forföll að gæta barna, veikra barna? Eru það forföll að skreppa í sumarbústað einmitt þann dag sem menn áttu að mæta? Það þarf að sjálfsögðu að meta. Ég mundi segja að ferð sem er löngu skipulögð sé forföll en ferð sem farin er eftir að kvaðning barst væri ekki forföll.