Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 10:55:02 (8903)

2004-05-25 10:55:02# 130. lþ. 125.5 fundur 750. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (dótturfélög sparisjóða, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv. 77/2004, Frsm. meiri hluta PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[10:55]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Því miður gerist það allt of sjaldan að frumvörp frá hv. þm. séu samþykkt á Alþingi. Allt of sjaldan. Ég hef verið fylgjandi því að menn geri meira af því og að nefndir taki meira frumkvæði í störfum sínum. Ég kenni því um að á Alþingi sé of mikið um pólitísk slagsmál en ekki málefnalegar umræður. Ég hef tekið mjög vel í þetta mál og ýmis önnur mál sem liggja fyrir hv. efh.- og viðskn., en t.d. um þetta mál má segja að það sé afbrigðilegt að því leyti að af launum allra þeirra sem spara í dag í sérstökum lífeyrissjóðssparnaði er greitt tryggingagjald og það er mótframlag atvinnurekenda. Hjá þessum hópi manna sem eru örorkulífeyrisþegar er ekki greitt tryggingagjald og þar er ekki hægt að hafa mótframlag atvinnurekenda. Þetta er m.a. það sem þyrfti að fara mjög ítarlega í gegnum og ég lagði til að nefndin ræddi það í sumar. Ég lagði það til, ég veit ekki betur. Það er ekki meiri sandkassaslagurinn en það. Auk þess sem tillagan er, eins og ég gat um, meingölluð því hún tekur bara til lífeyris Tryggingastofnunar en ekki lífeyrissjóðanna, hún tekur bara til örorkulífeyris en ekki maka- og barnalífeyris sem væri eðlilegt að taka með.

Ég get því ekki séð að þetta hafi verið neitt skrýtin ræða. Hins vegar geta menn ekki annars vegar verið í endalausum slagsmálum og sandkassaleik og svo hins vegar krafist þess að í einstökum málum bregði menn frá þeirri reglu og fari allt í einu að vera málefnalegir.