Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 11:26:12 (8909)

2004-05-25 11:26:12# 130. lþ. 125.5 fundur 750. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (dótturfélög sparisjóða, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv. 77/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[11:26]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var mikil heilagleikaræða hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal. Ég vil bara rifja það upp fyrir honum hvað hann sagði í fyrri ræðum sínum þar sem hann lýsti því að framferði tiltekinna manna, þar á meðal mín og fleiri manna í efh.- og viðskn., hefði verið með þeim hætti að hann treysti sér ekki til þess að fjalla málefnalega um tillögu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur.

Hvað varðar síðan vinnulagið í efh.- viðskn. þá vil ég bara minna hv. þm. og formann nefndarinnar á að ég, eins og aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar, hef ákveðinn rétt. Ég hef þann rétt að hv. formaður nefndarinnar komi fram með sama hætti við þingmenn stjórnarandstöðunnar, láti þá njóta sömu verndar og sömu tækifæra til að sinna sínum málum í nefndinni eins og þingmenn stjórnarliðsins. Ég vil bara minna hv. þm. á með hvaða hætti hann hóf samstarfið í vetur, minna hann á með hvaða hætti hann mismunaði þingmönnum stjórnarandstöðunnar og stjórnarliðsins og beitti allt öðrum leikreglum gagnvart þeim en okkur. (Gripið fram í.) Hv. þm. á bara að hafa það í huga. Menn sá fræjum og menn uppskera. Það er einfaldlega svo.

Í máli eftir máli hefur hv. þm. stýrt vinnu nefndarinnar þannig að hann hefur beinlínis blásið til ófriðar í staðinn fyrir að reyna að ná sátt um mál. Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. að koma og bera okkur á brýn að við viljum ekki ná þokkalegu vinnulagi í nefndinni vegna þess að dæmin tala. Við höfum, ég og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, starfað í mikilli sátt undir formennsku Vilhjálms Egilssonar og hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, í mikilli eindrægni svo til þess var tekið. Það var ekki fyrr en minkurinn kom í hænsnabúrið sem ófriðurinn byrjaði.