Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 11:28:16 (8910)

2004-05-25 11:28:16# 130. lþ. 125.5 fundur 750. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (dótturfélög sparisjóða, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv. 77/2004, Frsm. meiri hluta PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[11:28]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Það er eiginlega litlu að bæta við þessa ræðu því hún skýrir sig sjálf. Hann talar um heilagleikaræðu, hann talar um mink í hænsnabúi o.s.frv. Það er ekkert lát á því sem hefur verið og verður sennilega áfram því að hv. þm. sem er nú formaður Samf. er stöðugt að ráðast á einstakar persónur. Hann talar ekki málefnalega um mál. Þannig er það bara og þannig verður það væntanlega áfram. Ég mun þurfa að sitja undir slíkum ræðum áfram en ég mun ekki svara þeim frekar en hingað til nema það sem ég sagði núna. Nú þótti mér um koll keyra þegar hv. þm. var stöðugt, bæði undir liðnum um stjórn fundarins og svo í ræðu sinni, að geta um persónulega ágalla mína. (Gripið fram í: Þú lýstir hefnd ...) Já, hann talar líka um hefnd. Það sem ég sagði var að menn skyldu ekki búast við því að stjórnarliðar legðu lykkju á leið sína til þess að mæta frumvörpum og ræða þau sérstaklega. Nú hef ég reyndar gert það. Ég hef reyndar rætt þetta frv. við hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég hef rætt það við ráðuneytið líka. (Gripið fram í.) Ég er því búinn að vinna töluvert í þessu máli og það er ekki hægt að segja að ég hafi ekki mætt því með velvilja. Ég hef auk þess lagt til ... (Gripið fram í.) Herra forseti. Fæ ég frið fyrir frammíköllum? Ég hef auk þess lagt til að nefndin taki málið í sumarhléi þingsins þegar nefndir starfa að sjálfsögðu og ræði það og sérstaklega þá vankanta sem ég sá á frv. sem hefur í sjálfu sér mjög góða stefnu. Ég hef því viljað ræða mál á Alþingi málefnalega. Mér þykir mjög sárt hvernig t.d. fjölmiðlamálið var rætt hér vegna þess að í öllum þeim aragrúa ræðna sem voru haldnar voru góðir punktar inn á milli. Þeir týndust bara í allri umræðunni. Ég hygg að málið hefði orðið betra ef menn hefðu haft ræðurnar styttri og málefnalegri.