Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 11:46:19 (8915)

2004-05-25 11:46:19# 130. lþ. 125.5 fundur 750. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (dótturfélög sparisjóða, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv. 77/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[11:46]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Ég gef lítið fyrir það hvað hv. þm. Pétri H. Blöndal þykir málefnalegt. Hann kvartaði áðan yfir fjölmiðlaumræðunni sem hér hefur staðið linnulítið vikum saman. Ég sá ekki mikið til hv. þm. Péturs H. Blöndals, ég man ekki hvað hann hélt margar ræður þar. Hann getur kannski upplýst mig um það.

Frú forseti. Svo að ég komi aðeins að þessu efni. Hv. þm. segir að aðilinn sem lögreglan á að færa til skýrslugjafar sé einstaklingur sem vinni í fyrirtæki sem stjórn hlutafélagsins eða framkvæmdastjórinn tilnefnir. Hvernig á lögreglan að vita hver er tilnefndur til þessa? Hvernig á þá lögreglan að vita, og skattrannsóknarstjóri eftir atvikum, hvern á að færa í lögreglufylgd, rífa út af heimili sínu, rífa út af vinnustað og færa til rannsóknar, hugsanlega með réttarstöðu grunaðs manns eins og rætt var í nefndinni? Mér finnst þetta loðið og óskýrt og ég vona að hv. þingmanni þyki það ekki ómálefnalegt þótt ég segi fullum fetum: Svona lög á bara ekki að setja.

Í öðru lagi kom fram hjá hv. þingmanni að hann sér meinbugi á málinu sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir flytur. Það þarf að rannsaka ýmislegt í því. En hv. þm. hefur haft þetta til rannsóknar í heilan vetur. Hann hefur upplýst að hann hafi vitað af þessari tillögu frá því snemma í vetur og rætt hana mörgum sinnum við hv. þm. sem flytur hana. Svo kemur hv. þm. og bætir að lokum við enn einni skýringunni, og hún er þessi: Það hefur ekki gefist tóm til að ræða málið í þingflokki sjálfstæðismanna af því að það hafa verið svo mikil slagsmál í þingsölum um fjölmiðlamálið. Ég veit ekki betur en að það hafi legið fyrir af hálfu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur í allan vetur að þessi tillaga yrði flutt. Það hefur hv. þm. Pétur H. Blöndal staðfest með því að segja að hann hafi verið í samtölum við þingmanninn um þetta í allan vetur.