Húsnæðismál

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 16:48:36 (8929)

2004-05-25 16:48:36# 130. lþ. 125.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv. 57/2004, Frsm. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[16:48]

Frsm. minni hluta félmn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra sjálfur og hans ráðgjafar, m.a. sérfræðingur hans um Evrópska efnahagssvæðið, hafa aldrei haft efasemdir um að það mundi standast samninginn um Evrópska efnahagssvæðið að koma með þessi 90% lán þó Samtök banka og sparisjóða hafi efasemdir um það. Þess vegna er ekkert sem kemur í veg fyrir að hæstv. ráðherra komi nú með þá áætlun sem hann boðar um hvernig hann vilji sjá þessi 90% lán, þá með þeim fyrirvara að það komi grænt ljós frá Eftirlitsstofnun EFTA. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að ráðherrann gæti lagt fram slíka áætlun með sama hætti og á að leggja hér fram um áætlun um skattalækkanir eins og hér hefur verið boðað. Hvers vegna getur hæstv. ráðherrann ekki sett fram hugmyndir sínar í því efni þannig að fólk megi vita við hverju er að búast? Þetta segir manni að það sé verið að draga lappirnar í þessu máli og manni býður í grun að hér sé um ágreining milli stjórnarflokkanna að ræða.

Þessi litla tillaga sem við höfum flutt hér sem er einungis um það að jafna stöðu þeirra sem eru að kaupa íbúðir í fyrsta sinn og kostar ekki mikið, mundi ekki auka neitt útgáfu á bréfum eða kostnað fyrir ríkissjóð að stíga þó það skref. Hér er fyrst og fremst um að ræða jafnan hlut þeirra sem eru að kaupa íbúð í fyrsta sinn. Þannig að ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann geti ekki hugsað sér að styðja a.m.k. þá litlu tillögu sem er smáskref í áttina til þess að koma á 90% lánshlutfalli fyrir alla?

Ég tek líka eftir því, herra forseti, að hæstv. ráðherra svarar engu um það sem ég er að gagnrýna varðandi félagslega íbúðakerfið og þau fátæklegu svör sem hann gefur þar, að það hugsanlega komi fram úrbætur næsta haust, að hugsanlega komi fram einhver niðurstaða úr þessu nefndastarfi sem hefur staðið í eitt og hálft ár, ekki síst í ljósi þess að þegar liggja fyrir miklar úttektir og allir vita við hvern vanda er er verið að glíma varðandi félagslegar leiguíbúðir. Það sem á skortir er vilji til framkvæmda. Það er það sem ég harma að ráðherrann hafi ekki vilja til þess að bæta úr varðandi leiguíbúðir.