Húsnæðismál

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 16:55:42 (8933)

2004-05-25 16:55:42# 130. lþ. 125.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv. 57/2004, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[16:55]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur í ljós þegar þar að kemur hvernig stuðningi manna verður háttað við málið, enda höfum við ekki fengið að sjá glitta nema í hornin á tillögunni. Það er að sjálfsögðu til umfjöllunar og umræðu hérna vegna þeirrar brtt. sem minni hluti félmn. leggur fram. Þar erum við að rétta Framsóknarflokknum hjálparhönd og hjálpa ríkisstjórninni að stíga fyrstu skrefin yfir í að lánshlutfall hækki í 90%. Þess vegna verður sérstaklega spennandi að fylgjast með því hvernig breytingartillögunni reiðir af fyrir hinu háa Alþingi þegar hún kemur til kasta þingsins.

Í því ljósi og í framhaldi af málinu er sjálfsagt að leiða umræðuna næstu skref og spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann sjái fyrir sér þessi meginatriði tillögunnar. Annars vegar hvaða þak hafa menn hugsað sér og hugsuðu sér í fyrra í kosningabaráttunni að sett yrðu á 90% lánshlutfallið? Hins vegar hvaða áhrif töldu sérfræðingar, ráðgjafar hans og hann sjálfur að slík breyting, að lána fólki upp í 90% lánshlutfall af verði eigna sinna, mundi hafa á fasteignaverð í landinu? Þetta tvennt hlýtur að liggja fyrir nokkurn veginn þó svo að hugmyndin að lagafrumvarpinu sé til skoðunar hjá Eftirlitsstofnun EFTA. Það breytir því varla að menn hljóta að vera með það á takteinum hvaða þak menn hugsa sér að setja á lánin, hvaða áhrif þau munu hafa á íbúðaverð í landinu.