Húsnæðismál

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 16:58:06 (8935)

2004-05-25 16:58:06# 130. lþ. 125.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv. 57/2004, Frsm. meiri hluta GÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[16:58]

Frsm. meiri hluta félmn. (Guðlaugur Þór Þórðarson):

Virðulegi forseti. Þetta er búin að vera góð umræða og ansi ítarleg á þessum góða degi, afmæli Sjálfstæðisflokksins 25. maí. (Gripið fram í: Til hamingju með það.) Takk fyrir það, hv. þm. Ég ætla að reyna af því það er farið að styttast í þennan fund hjá okkur að fara örstutt í gegnum það sem hér hefur komið fram og þá sérstaklega það sem hefur verið beint að mér. Ekki hefur mörgum spurningum verið beint til mín, enda var hæstv. félmrh. hér, og ég ætla ekki að gera athugasemdir við veru hans hér, en ég vil taka undir það með hv. þm. Pétri Blöndal að mér finnst samt mjög eðlilegt að þegar málið er komið til kasta Alþingis, þá séum það við sem tökum á því og ræðum það, en hins vegar er ekki nokkur vafi að það var mjög gott að fá hæstv. félmrh. inn í umræðuna og mér fannst hann svara mjög vel spurningunum sem til hans var beint.

Ég vildi byrja á því að fara aðeins yfir það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson beindi að mér, varðandi brtt. sem komu fram í nefndinni um húsnæðismálin. Ef ég skildi hv. þm. rétt, virðulegi forseti, þá beindi hann tveimur spurningum til mín; annars vegar af hverju kom þessi brtt. við 5. gr. sem hljóðar svo:

,,Stjórn Íbúðalánasjóðs skal eftir því sem kostur er og að fengnu samþykki félagsmálaráðherra semja við aðila á markaðnum um afgreiðslu og innheimtu lána eða einstakra flokka þeirra.``

Hæstv. félmrh. fór yfir það sem við ræddum nú að vísu í nefndinni líka, það sem er í lagatextanum núna er að stjórn Íbúðalánasjóðs er skylt að gera þetta og ekki aðeins skylt, heldur hefur hún bara heimild til að semja við þá aðila sem eru í lánastarfsemi, fjármálastofnanir ef ég man það orðalag rétt.

[17:00]

Það sem hér er útvíkkað er að stjórninni er gefinn kostur á þessu og að semja við aðila á markaði, þá er ekki eingöngu átt við fjármálastofnanir, heldur líka aðra aðila sem geta sinnt þessu hlutverki.

Ástæðan fyrir því að menn eru að skilgreina hlutverk Íbúðalánasjóðs er sú að Íbúðalánasjóður getur sinnt ansi mörgu. Það er tæknilega ekkert því til fyrirstöðu. Í raun gæti Íbúðalánasjóður sinnt ýmsu sem viðskiptabankar gera núna. Ég held að almenn sátt sé um það hjá flestum stjórnmálaöflum, þó ég vilji alls ekki útiloka að svo sé ekki, að það sé skynsamlegt að Íbúðalánasjóður sé með ákveðinn skilgreindan ramma sem hann vinni eftir en ekki um að ræða að við setjum hér á stofn hefðbundinn viðskiptabanka. Hins vegar geta menn haft allar skoðanir á því. Ég átta mig alveg á því, virðulegur forseti, hver ástæðan er. Menn vilja skilgreina hvaða hlutverk Íbúðalánasjóður hefur og hverju aðrir aðilar á markaði eiga að sinna. Þess vegna er þetta þarna tilkomið. Ég held að það sé mjög eðlilegt og annað væri í rauninni óeðlilegt ef nefndir þingsins færu ekki gaumgæfilega, eins og gert var í þessu máli, yfir þau frumvörp sem eru til staðar og kæmu með betrumbætur ef svo ber undir. Í þessu tilfelli held ég að niðurstaðan sé mjög góð.

Síðan var annað sem kannski tengist þessu máli ekki beint, en það er spurning sem hv. þm. Ögmundur Jónasson beindi til mín, þ.e. hvort það væri félagsleg ábyrg stefna að færa húsnæðislán til bankanna og tók sérstaklega dæmi um það og þetta er að vísu nokkuð stórt mál sem er sjálfsagt að ræða, og væri örugglega hægt að ræða langt fram eftir degi og fram eftir nóttu, og hann nefndi sérstaklega að bankarnir mundu aldrei sinna sama hlutverki og t.d. Íbúðalánasjóður sinnir gagnvart landsbyggðinni.

Nú er því til að svara að stærsta ástæðan fyrir að Íbúðalánasjóður getur sinnt þessu hlutverki gagnvart landsbyggðinni er ríkistryggingin á lánunum. Það er stærsta einstaka ástæðan. Í mínum huga er það engin spurning að við getum notað ríkisvaldið, kannski með nokkrum takmörkunum þó, og er gert á margan hátt til þess að bæta upp og veita þeim aðilum þjónustu sem við teljum að það eigi að gera. Þannig gætum við notað ríkistrygginguna á íbúðalán þó svo þau væru ekki hjá Íbúðalánasjóði og það væri líka hægt að fara í ýmsar aðrar útfærslur ef menn skilgreina það sem félagslega stefnu að vera með aukna þjónustu, hún gæti þá verið víðtækari en hún nú er hjá Íbúðalánasjóði, þrátt fyrir að hann væri ekki til staðar.

Ég tek hér fram og endurtek það, virðulegi forseti, að sökum þess litla tíma sem við höfum, þá vil ég ekki fara núna nákvæmlega út í þær hugmyndir.

Ég vildi þó aðeins minnast hér á af því það kom fram í ræðum og það er í sjálfu sér gott að menn hafi áhyggjur af ungu fólki sem er að fara í húsnæðiskaup. Hér var talað um að það væri mjög mikilvægt og lagt upp úr því hjá mörgum hv. þingmönnum sem hér töluðu. Ég lít svo á að það sé nákvæmlega það sem verið er að gera með þessu frumvarpi. Við erum að reyna að bæta stöðu húsnæðiskaupenda sem eru sérstaklega ungt fólk. Það er eins og ég sagði í framsöguræðu minni, við erum að einfalda kerfið. Einfalda það fyrir fjárfesta sem gerir það að verkum að það eru meiri líkur á því að fleiri fjárfestar komi að þessu og þá sérstaklega erlendir fjárfestar, sem þýðir lægri vexti ef fleiri aðilar hafa áhuga á að fjárfesta í bréfunum og gera það.

Á sama hátt erum við að einfalda kerfið fyrir þá sem njóta kerfisins, þ.e. íbúðakaupendur. Allir sem hafa keypt sér íbúð þekkja það að þó að kerfið sem er til staðar núna hafi marga góða kosti, þá verður því ekki haldið fram að það sé einfalt. Það er gott fyrir alla aðila að kerfið einfaldist og peningalán komi í staðinn fyrir núverandi kerfi.

Menn hafa mikið rætt um leigumarkaðinn. Ég vil biðja þá aðila, sérstaklega hv. þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, að líta sér nær og skoða stærsta sveitarfélagið á landinu, Reykjavíkurborg, sem hefur með markvissum hætti stundað lóðaskortsstefnu, hrakið barnafólk úr borginni. Það liggja fyrir tölur sem sýna það að frá því R-listinn tók við árið 1994, hafa aldrei verið lengri biðlistar í sögu Reykjavíkurborgar. Það er 1001 aðili sem er á biðlista eftir félagslegu húsnæði og það er eins og hv. þm. Jón Bjarnason nefndi, þetta er á ábyrgð sveitarfélaganna. Það liggur alveg fyrir.

Þetta hefur verið löng umræða og ég ætla ekki að lengja hana meira, virðulegi forseti. Ég vil vísa aftur í, sem meðmæli með umræddum breytingum, þá úttekt sem ég vísaði í í framsögunni úr Barcleys Capital sem er erlent tímarit sem fjallar um fjárfestingarmöguleika. Þar kemur fram, með leyfi virðulegs forseta, ,,að fyrirhugaðar breytingar á skuldamarkaðnum í sumar veiti kjörið tækifæri til fjárfestinga``. Á sama hátt er talað um að það sé sérstaklega jákvætt að losna við útdráttinn, þ.e. endurkaup bréfanna, og flokkunum muni fækka úr 38 í 4. Barcleys Capital telur litla ástæðu til að ætla að ávöxtunarkrafan muni ekki lækka enn meira en orðið er. Nú er þetta fagtímarit ekki neinn stóridómur frekar en neitt annað í þessu lífi, en það gefur okkur þó góða vísbendingu um að það sem við erum að gera hér, virðulegi forseti, sé skynsamlegt og rétt skref í þá átt að bæta hag þeirra aðila sem eru í húsnæðiskaupum.