Húsnæðismál

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 17:07:30 (8936)

2004-05-25 17:07:30# 130. lþ. 125.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv. 57/2004, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[17:07]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ágætt að taka til umfjöllunar húsnæðismálin í Reykjavík. Þar er ýmislegt sem mætti betur fara. En Guði sé lof að Reykvíkingar eru lausir við íhaldið. Sú stefna sem hefur verið fylgt hér í húsnæðismálum frá 1998 þegar húsnæðiskerfinu var breytt í grundvallaratriðum, hefur komið sér mjög illa fyrir þá sem reisa félagslegt leiguhúsnæði. Vextir til þessara aðila voru hækkaðir úr einu prósenti í allt að 4,9%. Flestir, þar á meðal sveitarfélögin, fá þau lán á 3,5% vöxtum. Þannig að þessum aðilum, þar með Reykjavíkurborg, hefur verið gert mun erfiðara en áður var að sinna félagslegri húsnæðisþörf. Þetta er staðreynd.

Síðan örstutt að spurningum sem ég vakti máls á, varðandi 5. gr. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði að nú yrði Íbúðalánasjóði gefinn kostur á að versla við einkaaðila, að ýta verkefnum til einkaaðila. Þetta er ekki alveg nákvæmt, vegna þess að Íbúðalánasjóður skal nú eftir því sem kostur er koma verkefnum til þessara aðila. Spurning mín var þessi: Hvers vegna ekki að leggja það í vald stjórnar Íbúðalánasjóðs sjálfs að meta hvaða verkefni hann fer með út á markað og hvaða verkefnum hann sinnir innan dyra og láta hagsmuni sjóðsins eins stýra þar för?