Húsnæðismál

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 17:13:39 (8939)

2004-05-25 17:13:39# 130. lþ. 125.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv. 57/2004, Frsm. meiri hluta GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[17:13]

Frsm. meiri hluta félmn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nú bara byrja á því að þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir afmælisgjöfina og (ÖJ: Ertu ekki að fara í afmælið?) eins og hv. þm. veit, Ögmundur Jónasson, þá er ég einmitt á leið í afmæli Sjálfstæðisflokksins og það er eðli máls samkvæmt mér mikil ánægja og ég er ekkert að grínast með það, ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir það.

En svo því sé haldið til haga þá er ég ekki hér sem fulltrúi banka og verðbréfafyrirtækja en ég hef ákveðnar skoðanir í húsnæðismálum og það er gott að ræða þessi mál og við höfum farið ágætlega yfir þau. Mér finnst hins vegar eðlilegt að ræða þessa hluti í samhengi. Á sama hátt og hv. þm. Ögmundur Jónasson taldi að hann væri að rifja upp verk og stefnu Sjálfstæðisflokksins í húsnæðismálum, þá finnst mér það óeðlilegt og það gengur ekki upp sökum þess að þeir aðilar sem hafa átt svo stóran þátt og verið svo stórir ákvarðendur í þróun húsnæðismála eru svo sannarlega sveitarstjórnirnar, sérstaklega Reykjavíkurborg sem er langstærsta sveitarfélagið. Við höfum farið um víðan völl í umræðunni sem er eðli máls samkvæmt þegar um jafnstóran og áhrifamikinn málaflokk er að ræða. Auðvitað er ég í leiðinni að brýna hinn ágæta þingmann, hv. þm. Ögmund Jónasson, til þess að banka í félaga sína í R-listanum og reyna að fá þá til að snúa af þeirri braut sem þeir hafa verið á fram til þessa.

Aðalatriðið er þó það að ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson, og ég held þingheimur allur, er sammála um það markmið að bæta hag íbúðakaupenda, sama í hvaða tekjuflokki þeir eru. Að því skulum við vinna saman. Ég er sannfærður um að það frv. sem liggur hér fyrir er liður í því að ná því markmiði, en ef það er eitthvað fleira sem við getum gert, þá á ekki að hika við það.