Afgreiðsla sjávarútvegsnefndar á frumvarpi um stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 10:08:09 (8947)

2004-05-26 10:08:09# 130. lþ. 127.91 fundur 594#B afgreiðsla sjávarútvegsnefndar á frumvarpi um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), GHj
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[10:08]

Guðjón Hjörleifsson:

Herra forseti. Í gær var stór og merkilegur dagur í sjútvn. og sjávarútvegssögu okkar. Þar var afgreitt frv. um að útgerð báta með dagatakmörkun, þ.e. sóknardagabátar, skuli stunda veiðar með krókaaflamarki frá og með næsta fiskveiðiári. Það er ekkert óeðlilegt að þegar eitt mesta ágreiningsmál í sögunni leysist sé ágreiningur um málsmeðferð og fleira. Breytingin á þessu frv. er mjög einföld og þetta var niðurstaðan eftir mikil fundarhöld.

Samt sem áður skil ég menn alveg fyrir að gera athugasemdir varðandi boð á fundi. Forsendur breyttust, málið þróaðist í aðra átt, það tók lengri tíma að loka því og því varð að fresta fundum. En er það stóra málið þegar slík stórmál eru leyst?

Ég gerði mönnum grein fyrir ferlinu í gærkvöldi á fundinum, af hverju frestun varð. Þetta tók lengri tíma og við vorum að ræða við fulltrúa Landssambands smábátaeigenda um hugmyndir meiri hluta nefndarinnar um að loka þessu kerfi. Málsferlið er eðlilegt. Frv. er einfalt, fulltrúar Landssambands smábátaeigenda og fulltrúar sjútvrn. gerðu grein fyrir breytingum á frv., svöruðu spurningum og því var ekkert því til fyrirstöðu að ljúka málinu í gærkvöldi.

Það sem kemur mér mest á óvart er að fulltrúar minni hlutans reyndu að tefja þetta mál og stoppa að það gæti orðið að lögum á þessu þingi með því að senda það út til umsagnar. Það er alveg ljóst. Pólitískir hagsmunir ná alltaf lengra en hagsmunir heildarinnar, og það er miður. Í stað þess að vera að karpa um þetta ættum við að samfagna þessu stórágreiningsmáli okkar sem senn fer að ljúka.