Afgreiðsla sjávarútvegsnefndar á frumvarpi um stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 10:11:55 (8949)

2004-05-26 10:11:55# 130. lþ. 127.91 fundur 594#B afgreiðsla sjávarútvegsnefndar á frumvarpi um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), KHG
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[10:11]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það má auðvitað deila um það hvenær mál eru útrædd í þingnefnd en ljóst er að það þingmál sem nefndin hafði til umfjöllunar í gær hafði verið þar til umfjöllunar og fengið umsagnir. Það var ekkert athugavert við það þó að meiri hlutinn legði fram tillögur til breytingar á málinu og tæki ákvörðun um að taka málið þannig breytt út. Það er ekki almenn venja að senda brtt. til umsagnar áður en mál er endanlega tekið út úr nefnd. Það er afar fátítt.

Það sem var helst athugavert við það þingmál sem hæstv. sjútvrh. lagði fram var að það var ekki samkomulag um efni þess. Hæstv. ráðherra fékk það hlutverk af hálfu stjórnarmeirihlutans að ná samkomulagi við helstu hagsmunaaðila um niðurstöðu málsins og leggja það samkomulag fyrir Alþingi. Það var ekki samkomulag um efni frv. eins og hæstv. ráðherra lagði það fyrir á Alþingi. Þess vegna fékk ráðherrann það hlutverk og var áréttað að leita samkomulags við Landssamband smábátaeigenda. Sú vinna var í gangi í gær og þær viðræður leiddu til sameiginlegrar niðurstöðu. Forsvarsmenn Landssambands smábátaeigenda og sjútvrn. eru sammála um að mæla með þessum tillögum. Sú afstaða mín lá fyrir að ég mundi styðja sameiginlega niðurstöðu þessara tveggja aðila í málinu.

Menn geta síðan vegið og metið hverjir aðrir kostir séu í stöðunni. Mitt mat er að ekki sé þingmeirihluti fyrir því að viðhafa óbreytt dagakerfi með 23 daga gólfi. Það er bara mitt mat að ekki sé þingmeirihluti fyrir því á hv. Alþingi og við verðum að vinna út frá þeim veruleika sem við erum í á hverjum tíma, herra forseti.