Afgreiðsla sjávarútvegsnefndar á frumvarpi um stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 10:16:26 (8951)

2004-05-26 10:16:26# 130. lþ. 127.91 fundur 594#B afgreiðsla sjávarútvegsnefndar á frumvarpi um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), EKG
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[10:16]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Hér er það gagnrýnt að boðað hafi verið til nokkurra funda í sjútvn. í gær og þeim síðan frestað. Hver er ástæðan? Ástæðan er sú að við vorum með í höndunum frv. sem ríkti mikill ágreiningur um. Meðal annars benti minni hlutinn í sjútvn. á að í þeim umsögnum sem lágu fyrir nefndinni væri hvergi að finna stuðning við frv. Þá varð niðurstaða meiri hluta sjútvn. að það væri skynsamlegast að freista þess að reyna að ná frekara samkomulagi um þetta mál. Það tók tíma. Við höfðum vænst þess að þetta gæti gengið fyrir sig með greiðari hætti. Þess vegna boðaði formaður nefndarinnar til fundarins fyrr í gær.

Mat formanns nefndarinnar var, og það var auðvitað rétt mat, að stóra málið í þessum efnum væri að reyna að ná sameiginlegri niðurstöðu þeirra sem hefðu mestra hagsmuna að gæta í þessum efnum, þ.e. Landssambands smábátaeigenda og löggjafarvaldsins. Þess vegna þyrfti að gefa sér þann tíma sem væri nauðsynlegur til að komast að einhverri sameiginlegri niðurstöðu. Sem betur fer tókst síðdegis í gær eða undir kvöld í gærkvöldi að leggja fram tillögu sem var sameiginleg niðurstaða fulltrúa sjútvrn. og Landssambands smábátaeigenda um tilteknar breytingar á þessu frv. sem við munum ræða vonandi síðar í dag. Þetta skiptir miklu máli, eða telja menn að það hefði verið betri staða fyrir þingið og fyrir þetta mál að það væri í ófriði við allt og alla? Telja menn það ekki einhvers virði að hafa komist að sameiginlegri niðurstöðu með Landssambandi smábátaeigenda í þessum efnum? Ég tel að það skipti miklu máli. Ég tel að það hljóti að vera ávinningur fyrir málið, að a.m.k. skyldi þó miða áfram í þessa átt. (MÞH: Það hefði þótt niðurstaða ef þið hefðuð staðið í lappirnar.)