Afgreiðsla sjávarútvegsnefndar á frumvarpi um stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 10:18:44 (8952)

2004-05-26 10:18:44# 130. lþ. 127.91 fundur 594#B afgreiðsla sjávarútvegsnefndar á frumvarpi um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), KLM
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[10:18]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Í eldhúsdagsumræðum sagði ég m.a., með leyfi forseta: ,,Undanfarnar vikur hafa landsmenn hins vegar horft og hlustað agndofa á hvernig forustumenn ríkisstjórnarinnar drottna, hvernig þeir lítilsvirða þingmenn í eigin þingflokkum að ekki sé talað um þingið sjálft. Frumvörpum er nánast kastað inn á þing og sagt: Afgreiðið þetta og það strax.``

Ég átti náttúrlega sérstaklega við fjölmiðlafrumvarpið en hér er komið enn eitt dæmi um þessi vinnubrögð. Það er ekkert samkomulag við Landssamband smábátaeigenda. Þau orð sem formaður þeirra samtaka viðhafði í gær á fundum í sjútvn. ætla ég ekki að hafa eftir, lýsingu hans á þessum vinnubrögðum og því sem hér er verið að gera.

Það sem er allra verst við þetta, virðulegi forseti, er að sjútvrh. skuli voga sér að koma með þetta inn á lokadögum þingsins, jafnhandónýtt frv. og hann kom með sem hefur verið staðfest nú að er handónýtt vegna þess að brtt. eru ekkert smáræði. 1. gr. er þurrkuð út, 2. gr. fær að standa og 3. gr. er algjörlega snúið við. Þetta er nýtt frv. þannig að það er til vansa fyrir Alþingi að ætla að taka þetta mál og ræða það í einum spretti í restina á einum eða tveimur dögum og afgreiða svo stórt mál sem hér er verið að ræða um. Það varðar byggðarlögin miklu og líka eigendur þessara dagabáta. Þessi vinnubrögð eru alveg með ólíkindum. Ég vil aðeins geta þess í lokin, virðulegi forseti, að minni hlutinn í sjútvn. lagði fram tillögu um að þetta nýja mál, sem svo er, yrði sent út til aðila til umsagnar með tveggja daga umsagnarfresti og menn mundu nota tölvupóst og annað slíkt til að láta þetta ganga hratt fyrir sig. Það var fellt. Þá báðum við um að það yrði gert með sólarhringsfresti. Það var líka fellt. Stjórnarmeirihlutinn treystir sér ekki til að láta þessi verk sín fara út til þessara aðila og kalla eftir umsögnum jafnt sveitarfélaga sem annarra.

Virðulegi forseti. Það er Alþingi til vansa hvernig verið er að vinna að þessum málum.