Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 10:53:16 (8958)

2004-05-26 10:53:16# 130. lþ. 127.12 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, Frsm. meiri hluta GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[10:53]

Frsm. meiri hluta félmn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikið af samferðafólki mínu á svipuðum aldri sem hefur farið í fæðingarorlof og er á leiðinni í fæðingarorlof og ég hef aldrei heyrt einn einasta mann minnast á þetta, ekki einn einasta mann. Ég vitna í það aftur að það er sveigjanleiki þannig að menn geta dreift því yfir ansi langan tíma hvenær þeir fara í fæðingarorlof.

Ég veit alveg um stefnu ASÍ í þessu máli, hef gert athugasemdir við hana og spurt þá í félmn. Mig furðar satt að segja þessi ávinnsla þessara öflugu launþegasamtaka í þessu máli. Í áliti minni hlutans kemur fram hvaða upphæð er um að ræða. Hér er því haldið fram að hér muni 700 millj. (JóhS: Fólkið tapar þessu.) og það sem ég er að vísa í er að menn hugsi þetta. Hér erum við með kerfi sem finnst hvergi annars staðar. Það er örlátara hvað þetta varðar og ýtir undir jafnrétti og styrkir án nokkurs vafa fjölskylduna. Hver er þá krafan, virðulegi forseti? Það er að setja orlof á orlof. Menn fá orlofsdaga fyrir þann tíma sem þeir voru hjá fjölskyldu sinni.

Ég verð að viðurkenna að ég vil nálgast málið með þeim hætti að menn hugsi: Af hverju eru menn að þessu? Ég fór yfir það af hverju ég styð það að ég vilji sjá þessi lög í gildi og þessa framkvæmd í grófum dráttum eins og um er að ræða. Það eru ástæður fyrir því. Ég sé hins vegar enga ástæðu fyrir því að menn fái sérstakt orlof eða frídaga fyrir að vera með fjölskyldu sinni og mér finnst það ekki réttlátt, virðulegi forseti.