Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 10:57:44 (8960)

2004-05-26 10:57:44# 130. lþ. 127.12 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, Frsm. meiri hluta GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[10:57]

Frsm. meiri hluta félmn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sakna þess í málflutningi hv. þm. Ögmundar Jónassonar að hann fari yfir grundvallaratriði málsins og hann gerir það kannski í ræðu sinni í þessum hluta. Menn skulu átta sig á því og það kemur fram í áliti minni hlutans að allt kostar þetta peninga. Við viljum hins vegar gera þetta vegna þess að við trúum því að þetta auki jafnrétti milli kynja og svo er hitt sem er minna í umræðunni að ég trúi því að þetta hafi afskaplega jákvæð áhrif á fjölskylduna.

Við vitum líka að við getum ekki gert allt, við getum t.d. ekki tvöfaldað þennan rétt þrátt fyrir að við gjarnan vildum, eða þrefaldað hann. Í máli þessu eru hins vegar mörg álitaefni og það má örugglega finna ákveðna hópa sem mætti bæta hjá sem væri samstaða um og væri æskilegt að hjálpa til með. Það getur ekki verið markmið í sjálfu sér með þessum lögum að einn réttur gangi ekki á annan rétt. Það getur ekki verið. Markmiðið hlýtur að vera stærra og merkilegra og ef menn hugsa um réttlætissjónarmiðið á bak við lögin er það það að við erum að hjálpa fólki að vera með fjölskyldunni. Það er það sem við erum að gera. Við reynum að sjá til þess að bæði karlar og konur séu með fjölskyldunni. Við erum með mikinn sveigjanleika þannig að menn geti tekið orlofið þegar þeim hentar, yfir langan tíma, virðulegi forseti. Þess vegna er engin sanngirni í því að sérstakur orlofsréttur myndist við það að vera með fjölskyldu sinni.