Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 11:01:55 (8962)

2004-05-26 11:01:55# 130. lþ. 127.12 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, Frsm. meiri hluta GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[11:01]

Frsm. meiri hluta félmn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að skipta mér af því sem samið er um í frjálsum samningum. Ég tel það ekki mitt hlutverk. Það er hins vegar þannig, virðulegi forseti, að menn geta ekki gert allt fyrir alla. Þannig er lífið og alveg sama hvernig á það er litið þá verður að horfa til þess. Í þessu tilfelli er um að ræða löggjöf sem er framsækin og við getum verið stolt af henni. Hún hefur það að markmiði að jafna rétt kynjanna og í leiðinni, að ég tel, að gefa fólki tækifæri til að vera með fjölskyldu sinni. Hér hafa engin rök komið fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni, engin réttlætisrök fyrir því að menn fái sérstaka frídaga út á að þeir séu með fjölskyldu sinni.

Ef hv. þm. fer út í praktísku rökin, sem hér komu fram, sem ganga væntanlega út á að menn fái á næsta ári þar á eftir svo lítið frí, þá er hægt að koma í veg fyrir það með dreifingunni. Rökin sem hafa verið nefnd, þ.e. einu rökin sem ég hef heyrt, er að mismunun sé milli opinberra starfsmanna og starfsmanna á hinum almenna vinnumarkaði. Það er alveg rétt. En mismunurinn þar á er mjög mikill.

Það sem mér finnst rétt er að við sem löggjafarsamkunda, þegar við vinnum grunninn, hugum að því hvað er réttlátt og hvað er skynsamlegt. Ég get ekki séð neitt réttlátt við að eyða miklum eða litlum fjármunum í að menn fái frídaga fyrir að hafa verið með fjölskyldu sinni því þannig lít ég á orlof.