Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 11:04:28 (8963)

2004-05-26 11:04:28# 130. lþ. 127.12 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, Frsm. minni hluta JóhS
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[11:04]

Frsm. minni hluta félmn. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta félmn. um frv. til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof og lögum um tryggingagjald. Minni hlutann skipa hv. þm. Helgi Hjörvar, Valdimar L. Friðriksson og Gunnar Örlygsson. Hv. þm. Ögmundur Jónasson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann sammála því áliti sem ég mæli fyrir og stendur einnig að brtt. sem ég mun lýsa í framsögu minni.

Minni hluti nefndarinnar gagnrýnir einkum fjögur meginatriði í þessu frv. Það er í fyrsta lagi sú leið sem ríkisstjórnin fer til að styrkja stöðu sjóðsins en þar er að meginhluta tekið aukið fjármagn til Fæðingarorlofssjóðs úr Atvinnuleysistryggingasjóði og það gagnrýnum við harðlega. Það gæti hugsanlega komið í veg fyrir að hægt sé að bæta stöðu atvinnulausra á vinnumarkaðnum, sem ríkisstjórnin a.m.k. í orði kveðnu hefur að markmiði. Einnig gagnrýnum við að tækifærið sé ekki notað og ýmsir augljósir gallar á lögunum leiðréttir, gallar sem hafa komið fram í framkvæmdinni. Við nefnum einnig að ýmsar breytingar eru gerðar á lögunum sem eru til þess fallnar að skerða greiðslur í fæðingarorlofi umfram þakið sem sett er á hámarksgreiðslur. Í fjórða lagi gagnrýnum við það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson fjallaði um í andsvari við ræðu framsögumanns meiri hlutans, þ.e. misréttið sem nú er uppi, að orlofsgreiðslur eru ekki greiddar á almenna vinnumarkaðinum, einungis hjá opinberum starfsmönnum að lokinni töku fæðingarorlofs. Það teljum við að skerði fæðingarorlofsgreiðslur þannig að í reynd stöndum við frammi fyrir því að þeir sem eru á almenna vinnumarkaðinum hafa minna fæðingarorlof en þeir sem vinna hjá hinu opinbera. Ég vildi fara nánar í þessi fjögur atriði í framsögu minni.

Í fyrsta lagi vil ég ræða nokkuð um þak á fæðingarorlofsgreiðslur. Vissulega eru fyrir því sterk rök að setja þak á hámarksgreiðslur og líta til þess að það orki mjög tvímælis að greiða allt að 1.800 þús. kr. á mánuði í fæðingarorlof eins og gert hefur verið frá setningu laganna. Ekki síst ber að líta til þess að drjúgur hluti fjármögnunarinnar kemur úr Atvinnuleysistryggingasjóði en hámarksgreiðslur í atvinnuleysi eru innan við 90 þús. kr. á mánuði eftir þá hækkun sem verkalýðshreyfingin knúði í gegn í kjarasamningum. Auk þess þarf stór hluti karla og kvenna í fæðingarorlofi að sætta sig við mjög lágar greiðslur, einkum námsmenn, öryrkjar og atvinnulausir.

Það er líka fróðlegt að skoða hverjir hafa fengið fæðingarorlofsgreiðslur umfram 600 þús. kr. frá því að lögin tóku gildi. Á árinu 2003 fóru 195 manns yfir það þak sem frumvarpið gerir ráð fyrir að sett verði á hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, þar af 178 karlar og 17 konur. Þegar litið er til tekjudreifingar þessa hóps voru 88 karlar og tíu konur með tekjur á bilinu 600--700 þús. kr. árið 2003. Fjörutíu karlar og fjórar konur voru með tekjur á bilinu 700--800 þús. kr. Tvær konur voru með meira en 1 millj. kr. í mánaðartekjur og þrettán karlar.

Það kemur fram í umsögn Jafnréttisstofu að þar er talið að neikvæða hliðin á fæðingarorlofinu eða á reynslunni af því er að þar sést greinilega hve mikill launamunur kynjanna er á Íslandi. Þeir nefna það sérstaklega í umsögn sinni.

Fyrir liggur, svo horft sé á hina hliðina á málinu, að þak við 600 þús. kr. mánaðartekjur sparar Fæðingarorlofssjóði lítið. Gert er ráð fyrir 150 millj. kr. sparnaði að teknu tilliti til þeirra aðgerða sem grípa á til en stjórnvöld telja að einhver brögð séu að því að foreldrar leitist við að hafa áhrif á tekjur sínar til að fá hærri fæðingarorlofsgreiðslur.

Þakið skiptir engum sköpum fyrir fjárhagslega afkomu sjóðsins, en ýmsum hefur misboðið hversu háar greiðslur fámennur hópur getur fengið úr þessum sameiginlega sjóði landsmanna. Ég hef fullan skilning á sjónarmiðum þeirra sem ekki vilja að sett sé þak á fæðingarorlofsgreiðslur, en þá er höfðað til jafnréttis kynjanna á vinnumarkaði og við töku fæðingarorlofs. Ýmsir óttast að þakið geti leitt til þess að karlar með tekjur yfir 600 þús. kr. á mánuði muni síður taka fæðingarorlof en konur muni gera það þrátt fyrir verulega tekjuskerðingu. Þar sem konur væru líklegri til að nýta sér fæðingarorlofsrétt sinn og vera þar með frá vinnu gæti það síðan haft áhrif á jafnrétti kvenna við stöðuveitingar hálaunastarfa og möguleika þeirra til starfsframa í hærra launuðum störfum.

Þessu vildi ég halda til haga. Ég vil að það komi fram að ég skil vel sjónarmið þeirra sem vilja ekki þessa skerðingu. En þegar öllu er á botninn hvolft og metnir kostir þess og gallar að setja þakið á þá er niðurstaða okkar í minni hlutanum sú að styðja að þakið verði sett á en gegn ákveðnum skilyrðum sem felast í þeim brtt. sem ég mun gera grein fyrir. Við óttumst að þegar þakið verður einu sinni komið á muni stjórnvöld nota það til að trappa það meira niður, m.a. með því að láta það ekki taka hækkun í samræmi við breytingar á launavísitölu og þannig muni þetta þak enn lækka. Við horfum þar til reynslunnar af því hvernig farið er með ýmsar greiðslur sem ekki hafa verið bundnar launavísitölu heldur geðþóttaákvörðun stjórnvalda á hverjum tíma. Nefni ég þar atvinnuleysisbætur, hækkun á greiðslum öryrkja o.s.frv.

Flestir umsagnaraðilar fallast á að þak verði sett á fæðingarorlofsgreiðslur. BHM hefur þó gagnrýnt þakið mjög en ASÍ, BSRB og SÍB leggjast ekki gegn því að þak verði sett á hámarksgreiðslur. SÍB leggur áherslu á að hámarksfjárhæðin fylgi almennum launabreytingum. Þeir sem gagnrýna þakið telja að með því glatist sá tilgangur jafnréttislaganna að stuðla að því að sem flestir feður --- tekjuháir sem tekjulágir --- sinni fjölskylduábyrgð á öllum stigum í ríkari mæli en hingað til. Aðrir líta svo á að þessi þáttur sé ofmetinn og fæðingarorlof hafi ekki ráðandi áhrif á ákvörðun æðstu stjórnenda fyrirtækja um ráðningu starfsmanna, hvort sem umsækjandi er karl eða kona. Minni hlutinn óttast frekar að þakið verði fyrsta skrefið til að skerða fæðingarorlofsgreiðslur meira, tilhneiging verði hjá stjórnvöldum að lækka þakið í sparnaðarskyni og láta fjárhæðir ekki breytast í takt við launavísitölu. Að öllu samanlögðu mælir minni hlutinn með þeirri leið að þak verði sett á hámarksfjárhæð fæðingarorlofsgreiðslna í trausti þess að það sé ekki fyrsta skrefið til frekari lækkunar á greiðslunum. Við höfum flutt breytingartillögu í þá veru.

Annað atriðið sem við gagnrýnum er hvernig staðið er að því að styrkja stöðu Fæðingarorlofssjóðs. Með því að flytja fjármagn í verulegum mæli úr Atvinnuleysistryggingasjóði er stöðu sjóðsins teflt í mikla tvísýnu. Í því sambandi skal bent á að félagsmálaráðherra hefur sett á fót nefnd með aðilum vinnumarkaðarins sem hefur það verkefni að gera tillögur um úrbætur í málefnum atvinnulausra, m.a. að skoða tekjutengingu atvinnuleysisbóta. ASÍ, BSRB og SÍB hafa harðlega gagnrýnt breytingu á fjármögnunarfyrirkomulagi Fæðingarorlofssjóðs og telja að fjárhagslegum forsendum Atvinnuleysistryggingasjóðs sé stefnt í voða.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra sem heiðrar okkur með nærveru sinni, sem er þakkarvert og hann mun væntanlega taka þátt í umræðunni: Telur hæstv. félmrh. ekki vert að skoða það sem ASÍ hefur sett fram í þessu efni, varðandi þá miklu fjármuni sem fara frá Atvinnuleysistryggingasjóði til að styrkja stöðu Fæðingarorlofssjóðs? Getur hann eytt ótta okkar við að slíkt tefli í hættu átaki til að bæta stöðu atvinnulausra, m.a. með því að tekjutengja greiðslu til þeirra?

[11:15]

Síðan veltir maður fyrir sér hvað Atvinnuleysistryggingasjóður þolir. Þegar við leggjum mat á það eru spár um atvinnuleysi auðvitað lagðar til grundvallar. Verulegur munur er á mati ASÍ og þeirri spá sem fulltrúar félagsmálaráðuneytisins kynntu í félagsmálanefnd um áhrifin af því að færa umtalsverðar fjárhæðir frá Atvinnuleysistryggingasjóði í Fæðingarorlofssjóð. ASÍ spáir því að atvinnuleysi muni ekki minnka á næsta ári heldur verði það áfram 3,5%. Sömuleiðis leiðir ASÍ líkur að því að þegar árið 2005 verði halli sjóðsins ekki 677 millj. kr. heldur verði hann 1,5--1,8 milljarðar kr. og eigið fé komið niður fyrir 6 milljarða en í spá stjórnvalda er gert ráð fyrir að eigið fé sjóðsins verði 7,8 milljarðar árið 2005. Frávikin felast í því að ASÍ spáir meira atvinnuleysi á næstu árum en stjórnvöld og munar þar allt að 0,5% á ári. ASÍ spáir því að eiginfjárstaða sjóðsins fari niður í 3,8 milljarða kr. árið 2007 þegar allar líkur séu á að atvinnuleysi aukist verulega í kjölfar samdráttar í framkvæmdum við Kárahnjúka.

Ég spyr hæstv. ráðherra að því hvort hann hafi farið ofan í forsendurnar, annars vegar frá ráðuneytinu og hins vegar frá ASÍ. Hvaða ályktanir dregur ráðherra af því um þolmörk Atvinnuleysistryggingasjóðs?

Í umsögn ASÍ er lagt til að í stað þess að rýra tekjur Atvinnuleysistryggingasjóðs eins og stjórnvöld áforma verði hlutur hans óbreyttur og tekjuþörf Fæðingarorlofssjóðs mætt með þeim hluta tryggingagjaldsins sem ekki er sérstaklega varið til trygginga er tengjast vinnumarkaðnum og starfsemi tengdri honum. Við teljum að það hefði átt að skoða þá leið.

Athyglisvert er að það er ekki bara ASÍ sem gagnrýnir þá leið sem fara á við fjármögnun Fæðingarorlofssjóðs. Í umsögn Samtaka atvinnulífsins kemur fram að fjármögnun Fæðingarorlofssjóðs og tilfærslur á tryggingagjaldi frá Atvinnuleysistryggingasjóði valdi áhyggjum. Samtök atvinnulífsins óttast að sú fjármögnun sem skilin er eftir fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð muni ekki reynast nægjanleg. Áhyggjurnar eru því ekki aðeins hjá verkalýðshreyfingunni heldur einnig hjá Samtökum atvinnulífsins. Þessi ríkisstjórn hefur yfirleitt hlustað eftir skoðunum Samtaka atvinnulífsins á hlutunum. Hér vara samtökin alvarlega við stefnunni sem stjórnvöld ætla að taka í málefnum Atvinnuleysistryggingasjóðs. Hið sama gildir um umsögn Verslunarráðs Íslands, sem ég veit að sá forseti sem nú situr í stól forseta og tilheyrir stjórnarliðinu hlustar yfirleitt grannt eftir. Þeir telja að ekki séu færð rök fyrir þeirri fullyrðingu að staða Atvinnuleysistryggingasjóðs sé það sterk að óhætt sé að lækka greiðslur í þann sjóð. Ég spyr ráðherra hvort hann telji enga ástæðu til að staldra við þau áform að taka svo mikið fjármagn úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Ég ætla ekki að tefja meira við þessar umsagnir en bið hæstv. ráðherra að athuga þær.

ASÍ og BSRB gagnrýna þær breytingar sem gerðar eru á fjármögnunarfyrirkomulagi Vinnueftirlits ríkisins. Gjald til Vinnueftirlitsins af tryggingagjaldi er samkvæmt lögum allt að 0,08%, en sá gjaldstofn hefur þó ekki verið fullnýttur. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þessi tekjustofn Vinnueftirlitsins falli niður og renni þess í stað til að bæta stöðu Fæðingarorlofssjóðs en fjárhagsrammi stofnunarinnar verði ákvarðaður í fjárlögum hverju sinni.

Ég vek athygli hæstv. ráðherra á því að eftir að félmn. lauk störfum barst umsögn, dagsett 5. maí, frá Eyjólfi Sæmundssyni forstjóra Vinnueftirlits ríkisins þar sem hann vekur athygli á þessu og segir, með leyfi forseta:

,,Við undirbúning núgildandi vinnuverndarlaga var samkomulag milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins um að sjálfstæði Vinnueftirlitsins og fjárhagslegur grundvöllur yrði tryggður með sérstöku gjaldi, vinnueftirlitsgjaldi sem lagt yrði á sama gjaldstofn og slysatryggingagjald til Tryggingastofnunar. Árið 1991 var þetta gjald fellt inn í tryggingagjald vinnuveitenda til hagræðis við álagningu og innheimtu. Nú er lagt til að fella þennan markaða tekjustofn stofnunarinnar niður. Þar með yrði horfið frá því grundvallaratriði að atvinnulífið greiði kostnað af rekstri stofnunarinnar.

Þó að hlutdeild stofnunarinnar í tryggingagjaldi hafi farið nokkuð lækkandi hefur þetta fyrirkomulag þó leitt til þess að stofnunin hefur getað brugðist við auknum umsvifum á vinnumarkaði og nýjum verkefnum sem fylgja samfélagsbreytingum, nýjum lagaákvæðum o.fl. Nú síðast reyndist unnt að bregðast að hluta við auknum verkefnum tengdum stórframkvæmdum á Austurlandi þótt ekki kæmu til auknar fjárveitingar.``

Ekki virðist veita af því að Vinnueftirlitið sé sterkt og geti gegnt eftirlitshlutverki að því er varðar stórframkvæmdir. Því miður höfum við dapra reynslu af þeim framkvæmdum sem hér voru nefndar og ætla má að ekki hafi verið staðið að þeim sem skyldi.

En í niðurlagi bréfs Vinnueftirlitsins segir, með leyfi forseta:

,,Í ljósi ofanritaðs hvetur undirritaður til þess að fundin verði leið til að stofnunin verði áfram fjármögnuð með launatengdum gjöldum vinnuveitenda.``

Ég tel, virðulegi forseti, nauðsynlegt að hæstv. ráðherra komi inn í þessa umræðu. Það var upplýst í nefndinni, og ég óska eftir að félmrh. staðfesti það, að félmrh. og fjmrh. hefðu sameiginlega ákveðið að þrátt fyrir þessa breytingu verði fjármagn ekki skert til Vinnueftirlitsins. Ég óska eftir því að það verði staðfest við þessa umræðu að breytingin muni ekki leiða til skerðingar á tekjustofnum Vinnueftirlitsins.

Næst vil ég víkja, virðulegi forseti, að áhrifum af hertum reglum. Þar kom ýmislegt fram sem kom mér mjög á óvart og full ástæða hefði verið til að meiri hluta nefndarinnar tæki mark á. Eitt af helstu gagnrýnisatriðum umsagnaraðila, einkum ASÍ, BSRB, BHM og SÍB, var breytt viðmiðunartímabil tekna sem fæðingarorlofsgreiðslur miðast við. Lagt er til í frumvarpinu að viðmiðunartímabilið verði lengt, miðað verði við tekjuár í stað tiltekins fjölda mánaða og að viðmiðunartímabilið standi yfir í tvö tekjuár á undan fæðingarári í stað þess að miðað sé við 12 mánaða samfellt tímabil.

Ljóst er að lengt viðmiðunartímabil getur leitt til skerðingar á fæðingarorlofsgreiðslum og áætla ASÍ, BSRB og BHM að í mörgum tilvikum geti hlutfall fæðingarorlofs af tekjum á viðmiðunartímabilinu farið úr 80% af tekjum niður í allt að 70% í mörgum tilvikum. Ástæðan sem þeir tefla fram er sú að miðað verður við tekjur í tvö tekjuár á undan fæðingarári og því taka fæðingarorlofsgreiðslur að verulegu leyti mið af 2--3 ára gömlum tekjum. Þannig getur viðmiðunartímabilið orðið nálægt þremur árum því að ein helsta breytingin sem lögð er til á fæðingarorlofskerfinu er samstilling þess við skattkerfið og því miðað við heil tekjuár í stað 12 mánaða samfellds tímabils.

Af þessu höfum við áhyggjur. Ein af breytingartillögum okkar gengur út á að koma til móts við þessa gagnrýni en því miður náðist ekki samstaða um það í félmn. að koma til móts við okkur um þá tilhögun að við útreikning á meðaltali heildarlauna skuli taka tillit til breytinga á launavísitölu á viðmiðunartímabilinu. Það mundi færa okkur nær réttri upphæð og tekjurnar væru ekki orðnar það gamlar að rauntekjur yrðu allt aðrar þegar viðkomandi færi í fæðingarorlof, sem gæti leitt til þess að í fæðingarorlofi fái einstaklingar ekki 80% af tekjum heldur geti dottið niður í allt að 70% tekna sinna í mörgum tilvikum.

Viðmiðunartímabilið er orðið nálægt þremur árum því að ein helsta breytingin sem lögð er til á fæðingarorlofskerfinu er samstilling þess við skattkerfið. Miðað er við heil tekjuár í stað 12 mánaða samfellds tímabils. Þannig verða fæðingarorlofsgreiðslur þess sem fæðir barn í lok þessa árs miðaðar við tekjuárin 2002 og 2003, en t.d. ekki þær tekjur sem viðkomandi hafði á árinu þegar barnið fæðist. Þessar tekjur, sem nálgast að vera þriggja ára gamlar, eru ekki uppfærðar miðað við launavísitölu eða verðlagsbreytingar á viðmiðunartímabilinu. Það leiðir til skerðingar á fæðingarorlofsgreiðslum sem ASÍ metur 5--7% en BHM meira en 10% í ýmsum tilvikum. Við erum að tala um að greiðslurnar geti dottið niður í 70--75% af tekjum viðkomandi miðað við það sem var áður.

ASÍ segir þetta alvarlegasta ágallann á þeim sparnaðartillögum sem er að finna í frumvarpinu. Mikilvægt hefði verið að finna flöt á málinu þar sem stjórn og stjórnarandstaða hefðu náð saman í þessu efni og gert lagfæringar á þeim galla. BSRB segir að ljóst sé að þetta muni skerða greiðslur úr sjóðnum vegna launaskriðs sem stöðugt eigi sér stað. Eftir því sem viðmiðunartímabilið nær lengra aftur í tímann, þeim mun lægri verða greiðslur úr sjóðnum. Í umsögn BHM segir að rofið sé samráð við samtök launafólks um því sem næst 80% heildartekna í fæðingarorlofi.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi gert sér grein fyrir þessum áhrifum breytinganna og hertum reglum í frv. Minni hlutinn tekur undir að þarna eru á ferðinni verulegir ágallar á frumvarpinu. Ef þak fæðingarorlofsgreiðslna hækkar ekki í samræmi við launavísitölu getur það leitt til verulegrar skerðingar á greiðslunum. Hlutfall greiðslna miðað við laun skerðist þá en það getur stefnt markmiðum fæðingarorlofslaganna í tvísýnu. Það er farið ítarlega yfir þetta í nefndarálitinu og ég vísa til þeirra athugasemda.

Við bendum einnig á að samkvæmt frumvarpinu verður felld út heimild til að taka til greina starfstíma foreldris í öðru EES-ríki þótt foreldri hafi unnið hér á landi í minnsta kosti einn af síðustu sex mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. ASÍ hefur gagnrýnt þessa breytingu og telur mikið álitamál hvort heimilt sé og sanngjarnt að hætta að taka tillit til starfs í öðrum löndum. Minni hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og veltir því upp hvort eðlilegt sé í því alþjóðaumhverfi sem við búum við. Sú staða getur vissulega komið upp að rof verði á sex mánaða samfelldum tíma á vinnumarkaði, sem er skilyrði fyrir greiðslum fæðingarorlofs, ef viðkomandi vinnur erlendis stuttan tíma af þessum sex mánuðum sem krafa er gerð um. Þar með glatar hann þá rétti sínum til fæðingarorlofs og á einungis rétt á fæðingarstyrk.

Minni hlutinn vill nota þetta tækifæri, virðulegi forseti, til að vekja athygli á ýmsum göllum á framkvæmd laganna frá því að fæðingarorlofslögin tóku gildi, göllum sem ekki er tekið á í þessu frv. Því miður, virðulegi forseti, náðist ekki samkomulag um það í nefndinni. Þar var m.a. fjallað um ágalla á núgildandi lögum um fæðingar- og foreldraorlof sem snertir lífeyrisþega og þá sem rétt eiga til umönnunargreiðslna. Samkvæmt 2. mgr. 33. gr. laganna á foreldri sem nýtur greiðslna í fæðingarorlofi ekki rétt til umönnunargreiðslna vegna sama barns eða sömu fæðingar. Sama gildir um lífeyrisgreiðslur, þannig að réttur öryrkja til lífeyrisgreiðslna fellur niður í fæðingarorlofi.

[11:30]

Að okkar mati felst í þessu mikið óréttlæti sem verður að leiðrétta. Mér fannst reyndar, virðulegi forseti, að fulltrúar félmrn. sem mættu á fund nefndarinnar hefðu fullan skilning á því að lagfæra þyrfti frv. varðandi umönnunargreiðslur og lífeyrisgreiðslur. Menn settust hins vegar ekki niður við það jafnvel þótt tími og svigrúm væri til eftir að þetta mál fór úr nefndinni og sýnt var að þinghald mundi dragast. Við höfum samt ekki fengið frá félmrh. eða félmrn. tillögur eða hugmyndir um breytingar í þessu efni. Við hefðum getað skoðað það milli 2. og 3. umr. Nægur tími hefði gefist til að skoða þessa breytingu ef raunverulegur vilji hefði verið fyrir hendi. En fulltrúar félmrn. sýndu skilning á því að þarna væri um að ræða galla á lögunum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort eitthvað hafi verið unnið í málinu varðandi lífeyrinn og umönnunargreiðslurnar frá því að félmn. lauk störfum og hvort við megum vænta breytinga á þessu. Þarna eru sannarlega ágallar á lögunum.

Ég bendi á að réttur öryrkja til lífeyrisgreiðslna fellur niður í fæðingarorlofi. Þannig geta t.d. tekjur öryrkja í mörgum tilvikum skerst svo þegar þeir fara í fæðingarorlof að hlutfall fæðingarorlofsgreiðslna af lífeyrisgreiðslum, sem falla niður, getur farið niður í 60--65%. Þetta er mun lægra en hjá öðrum þrátt fyrir að viðmiðunartímabilið sé lengt. Eins og ég sagði áðan geta tekjur í fæðingarorlofi farið úr 80 niður í 70--75% hjá fólki á almenna markaðnum. En vegna þessa ágalla á lagafrv. getur hlutfall fæðingarorlofsgreiðslna í lífeyrisgreiðslum fallið niður í 60--65%, miklu lægra hlutfall af fyrri tekjum en aðrir fá sem fara í fæðingarorlof. Ég vildi gjarnan heyra hver skilningur hæstv. ráðherra er á þessum ágöllum og hvort til standi að breyta þeim.

Í svari sem fram kom á Alþingi við fyrirspurn minni um fæðingarorlof á 128. löggjafarþingi kemur fram að 112 börn fædd á árunum 2001 og 2002 hafi fengið umönnunarmat. Telja megi nokkuð ljóst að í tilvikum 36 barna sem fæddust á árinu 2001 og tíu barna sem höfðu fæðst á árinu 2003 þegar svarað var hefðu umönnunarbætur verið greiddar frá fæðingu ef umönnunargreiðslur og fæðingarorlof mætti greiða saman en það er bannað samkvæmt núgildandi lögum. Það er vandamálið og viðfangsefnið, þ.e. að samkvæmt núgildandi lögum fara ekki saman umönnunargreiðslur og fæðingarorlofsgreiðslur. Engin rök mæla með því að foreldrar sem eignast börn sem þurfa sérstakrar umönnunar við samkvæmt mati verði án þeirra greiðslna í fæðingarorlofi, enda eðli máls samkvæmt um að ræða viðbótarútgjöld þessara foreldra vegna barns sem að einhverju leyti fæðist vanheilt.

Minni hlutinn flytur breytingartillögu. Ég spyr ráðherrann hvort hann væri tilbúinn að skoða hana og við mundum draga hana til baka til 3. umr. ef ráðherrann ljær því máls að skoða það að fella niður ákvæði 33. gr. sem kveður á um að réttur til umönnunargreiðslna og lífeyris geti ekki farið saman við fæðingarorlof. Ég spyr jafnframt hæstv. ráðherra hvort hann hafi kynnt sér þessa breytingartillögu í fjórum töluliðum sem við flytjum á þskj. 1531. Ég hef reynt að færa rök fyrir þeim og öll sanngirni mælir með að þær verði skoðaðar. Hefur ráðherra kynnt sér tillögurnar og vill ráðherrann vill fá svigrúm til að skoða einhverjar þeirra frekar. Við mundum þá draga tillögurnar til baka til 3. umr. þannig að við fáum réttlátari og sanngjarnari fæðingarorlofslög en í stefnir verði frv. afgreitt með þessum ágöllum.

Við fórum í andsvörum áðan yfir það misrétti sem viðgengst varðandi orlofstökuna. Ég ætla ekki að eyða tíma þingsins í að fara mikið yfir það mál. Við höfum oft rætt það í þessum þingsal. Mín skoðun er sú að álitið sem fyrrv. félmrh. gaf þinginu sem svar við fyrirspurn minni standist fullkomlega. Það er núna lagt fram sem gögn í málshöfðun ASÍ í þessu máli vegna þess óréttlætis sem ríkir gagnvart launamönnum á almenna vinnumarkaðinum og þeim sem vinna hjá hinu opinbera. Orlofsgreiðslur þeirra sem vinna hjá hinu opinbera skerðast ekki eftir töku fæðingarorlofs en skerðast hjá þeim sem eru á almenna vinnumarkaðinum. Í raun hafa menn á almenna markaðnum minna fæðingarorlof en þeir sem eru hjá hinu opinbera. Það má búast við því að frá gildistöku laganna hafi 12--14 þúsund manns orðið af orlofsgreiðslum vegna þessa og af þeim verið hafðar a.m.k. 700 millj. kr. Við tökum þetta í brtt. okkar og notum það tækifæri sem gefst til að flytja brtt. og taka upp efnisatriði í frv. hv. þm. Ögmundar Jónassonar um þetta efni sem liggur fyrir fyrir félmn.

Virðulegi forseti. Félmn. fékk margar ábendingar, m.a. ítarlega umsögn frá Tryggingastofnun ríkisins sem lagði fram ýmsar athugasemdir um það sem hún taldi að betur mætti fara við framkvæmd laganna. Sumar höfum við í minni hlutanum tekið upp en aðrar gafst hreinlega ekki tími til að fara yfir og skoða og meta. Ég efast ekki um að þær eigi fullan rétt á sér. Tryggingastofnun ríkisins heldur utan um framkvæmd þessara laga og ætti að vera sá aðili sem hefði besta og gleggsta vitneskju um lagfæringar á lögunum eftir þá reynslu sem við höfum af þeim.

Félag einstæðra foreldra og Jafnréttisstofa vöktu athygli á að taka þyrfti á rétti einstæðra foreldra. Réttur til fæðingarorlofs er ekki framseljanlegur milli foreldra og því getur sú staða komið upp hjá börnum einstæðra foreldra að þau njóti einungis fæðingarorlofs í sex mánuði. Jafnréttisstofa vekur rækilega athygli á þessu. Ég veit að þetta getur verið vandmeðfarið en við hljótum að hugleiða þetta. Ekki er gert ráð fyrir því að mæður ófeðraðra barna geti nýtt sér orlof sem faðir hefði annars átt rétt á. Benti Félag einstæðra foreldra á að á árinu 2002 hefðu ófeðruð börn á aldrinum 0--18 ára verið alls 148. Minni hlutinn telur að mjög varlega verði að fara í að heimila móður að nýta allan réttinn á níu mánaða fæðingarorlofstímabili þannig að ekki verði stefnt í hættu þeim markmiðum að báðir foreldrar nýti sér þann rétt sem lögin heimila. Engu að síður er full ástæða til að staða þessara barna verði skoðuð, einkum þegar um ófeðruð börn er að ræða. Leggur minni hlutinn til að félagsmálaráðherra láti skoða málið og mat verði lagt á áhrif þess að auka rétt þessa hóps.

Nú spyr ég hæstv. félmrh., ef hann má vera að því að gera hlé að samtali sínu við varaformann félmn., hvort hann muni láta skoða þessar athugasemdir sem við fengum frá Félagi einstæðra foreldra og Jafnréttisstofu varðandi stöðu einstæðra foreldra og rétt ófeðraðra barna.

Ég hef lokið, herra forseti, rökstuðningi við gagnrýni okkar og breytingartillögur þær sem við höfum sett fram. Ég hef jafnóðum gert grein fyrir athugasemdum okkar og breytingartillögum og tel ekki ástæðu til að fara lið fyrir lið yfir þær tillögur sem lagðar eru fram á þskj. 1531. Þær miða helst að því að tryggt sé að það verði ekki rýrnun á fæðingarorlofsgreiðslunum þannig að þakið miðist ævinlega við breytingar á launavísitölu á viðmiðunartímabilinu, útreikningstímabilinu. Þá verði einnig tekið mið af launum miðað við breytingu á launavísitölu á tímabilinu. Síðan leggjum við til að réttur þeirra sem njóta umönnunargreiðslna verði betur tryggður, að þessar greiðslur geti farið saman, þ.e. umönnunargreiðslur og fæðingarorlofsgreiðslur. Hið sama gildir um lífeyrinn sem um er fjallað í 33. gr. Sömuleiðis leggjum við til að foreldrar í fæðingarorlofi fái orlofslaun þannig að þau starfstengdu réttindi sem fólk hefur á vinnumarkaðinum rýrni ekki ef það tekur fæðingarorlof.

Þetta eru brtt. okkar, virðulegi forseti. Eins og fram kom í upphafi máls míns styður minni hlutinn meginefni frv. að því gefnu að þær brtt. sem fram koma í áliti minni hlutans nái fram að ganga. Við teljum að margar af þessum brtt. skipti sköpum um hvort markmið fæðingarorlofslaganna nái fram að ganga og sé ekki stefnt í tvísýnu. Það veltur því, virðulegi forseti, á framgangi þeirra við atkvæðagreiðslu og eftir atvikum á undirtektum ráðherra á eftir hvort minni hlutinn mun styðja frv. í heild sinni. Telur ráðherra þess virði að skoða þessar brtt. milli 2. og 3. umr.? Við munum láta reyna á þessar breytingar við 2. umr. og eftir atvikum 3. umr. Það fer eftir undirtektum ráðherra við þessar brtt. Af því mun afstaða okkar til frv. í heild ráðast við 3. umr. málsins.