Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 12:08:35 (8965)

2004-05-26 12:08:35# 130. lþ. 127.12 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[12:08]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. las í ræðu sinni álit nánast gervallrar verkalýðshreyfingarinnar sem styður að setja þak á fæðingarorlofsgreiðslur. Þegar fæðingarorlofslögin voru sett var aðalmarkmið þeirra að gera karlmenn jafndýra og konur á vinnumarkaði þannig að ekki væri lengur neitt því til fyrirstöðu að greiða konum jafnhá laun og karlmönnum. Telur verkalýðshreyfingin virkilega að koma eigi á jafnrétti karla og kvenna alls staðar nema í háu laununum, frú forseti? Eiga karlmenn að vera þar ódýrari áfram? Er þetta virkilega markmiðið? Ég hélt að það væri einmitt þar sem þyrfti að auka jafnréttið, frú forseti.

Hv. þm. beindi fyrirspurn til hæstv. félmrh. í ræðu sinni. Telur hv. þm. eðlilegt að hæstv. ráðherra sé spurður álits á því efni sem við ræðum í dag, nefndaráliti og tillögu félmn.? Telur hann eðlilegt að ráðherrann leggi mat sitt á þær tillögur? Er þetta mál ekki á forræði þingsins? Ég hélt það. Er það ekki niðurlæging fyrir þingið ef ráðherrann, þ.e. framkvæmdarvaldið, á að leggja mat á tillögur nefndarinnar?