Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 12:17:00 (8969)

2004-05-26 12:17:00# 130. lþ. 127.12 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, Frsm. meiri hluta GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[12:17]

Frsm. meiri hluta félmn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson talaði um að hér væri um að ræða lítils háttar breytingar á löggjöfinni. Ég held að það sé rétt hjá honum. Það er skynsamlegt fyrir okkur að fara vel yfir málið og velta við ýmsum steinum. Mér fannst hv. þm. Ögmundur Jónasson gera það ágætlega.

Ég tók eftir því að hv. þm. talaði um að hann vildi lengja fæðingarorlofið. En hann er á móti því að taka til þess fjármagn sem farið hefur í Atvinnuleysistryggingasjóð. Hann er á móti því að nýta í því skyni 0,08% sem farið hafa af tryggingagjaldinu til að fjármagna Vinnueftirlitið. Síðan fór hann yfir það að hann væri fylgjandi því að greiða orlof í orlofi. Það teljast vera 700 millj. kr. sem færu í að uppfylla slík skilyrði ef um það yrðu sett lög. Ég vil því spyrja hv. þm., þar sem þetta eru engar smáupphæðir: Hvernig á að fjármagna þetta? Ég efast ekki um að ég fái góð svör við því.

Annað varðandi orlof á orlof. Hv. þm. fór allt í einu að tala um þetta sem sérstakan rétt láglaunamanna. Hv. þm. veit að það er ekki rétt og hefur ekkert með rétt láglaunamanna að gera. Það er rangt af hv. þm. að leggja málið upp með þeim hætti. Einu rökin sem hann kom fram með og heyrst hafa eru að þetta sé spurning um jafnan rétt opinberra starfsmanna og þeirra sem á almenna markaðnum eru. Eins og menn þekkja er mikill munur þar á og mismunandi orlofsréttindi eru aðeins einn þáttur af því. Ég vil hins vegar nota tækifærið og spyrja hv. þm. Hann veit af hverju menn fá rétt til orlofslauna almennt. Menn eru í vinnu og hafa rétt til að fara í frí. Hvernig metur hv. þm. þann rétt í fæðingarorlofi? Til hvers er sá réttur? Er það til að fara í frí frá fjölskyldunni?