2004-05-26 13:32:28# 130. lþ. 127.95 fundur 598#B staðan fyrir botni Miðjarðarhafs og viðbrögð íslensku ríkisstjórnarinnar# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[13:32]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er fátt sem ógnar heimsfriðnum jafnmikið og átökin fyrir botni Miðjarðarhafs. Gróf mannréttindabrot og ofbeldi Ísraelsstjórnar gagnvart íbúum herteknu svæðanna í Palestínu aukast stöðugt. Ísraelsstjórn lætur elta uppi og drepa forustumenn Palestínumanna og hún hefur jafnvel lýst því yfir að til greina komi að drepa Arafat, réttkjörinn forustumann palestínsku þjóðarinnar.

Daglega eru alþjóðalög brotin. Samþykktir öryggisráðs SÞ eru hunsaðar og eindregin tilmæli Evrópusambandsins að engu höfð. Ísraelska ríkisstjórnin heldur Palestínumönnum í helgreipum.

Ofbeldi fæðir alltaf af sér ofbeldi. Illvirkjum Ísraela er svarað með skelfilegum sjálfsmorðsárásum palestínskra ungmenna sem við þessar ömurlegu aðstæður sjá hvorki von né tilgang með lífi sínu. Það er þessi vítahringur sem kyndir undir vaxandi ólgu um allan hinn arabíska heim. Hann er eldsmaturinn á bálið í Írak, hann leggur stöðugt til nýja liðsmenn hermdarverkasamtaka eins og al Kaída sem jafnvel við Íslendingar höfum þurft að bregðast við með margvíslegum hætti.

Allt gerist þetta í skjóli Bandaríkjastjórnar og Bush forseta. Hann hefur nú hellt olíu á eldinn með því að veita Sharon og Ísraelsstjórn skjól til að ganga enn þá lengra en áður. Í síðasta mánuði lagði hann blessun sína yfir að Ísraelsstjórn innlimaði varanlega helming af vesturbakka Jórdan.

Hluti af þeirri áætlun birtist okkur í skelfilegum fregnum frá Rafa á Gaza-svæðinu þar sem tugir saklausra borgara voru drepnir og hundruð húsa voru jöfnuð við jörðu. Sú árás var svo skelfileg að meira að segja einn ráðherra í sjálfri ríkisstjórn Sharons líkti henni við árásir nasista á heimili foreldra sinna í síðari heimsstyrjöldinni.

Bush Bandaríkjaforseti studdi sömuleiðis ákvörðun Ísraela um að leyfa flóttamönnum ekki að snúa aftur til heimila sinna á herteknu svæðunum. Evrópusambandið, aðalritari SÞ og fjöldi þjóða um allan heim hafa fordæmt óverjanlegan stuðning Bandaríkjanna við landránið. Stefnubreyting Bandaríkjanna, sem sprettur af hreinni hentistefnu til þess að auka líkur á endurkjöri Bush sem forseta, hefur í reynd gert út af við friðarferlið og eytt trúverðugleika Bandaríkjanna sem sáttasemjara í deilunni. Alþjóðasamfélagið þarf þess vegna að finna nýjar leiðir til áherslu á kröfuna um að Ísraelsstjórn stöðvi árásir á Palestínumenn, dragi heri sína til baka frá öllum herteknu svæðunum og setjist að samningaborðinu.

En hvað í ósköpunum getur þá smáríkið Ísland gert?

Við höfum sterk áhrif meðal Norðurlandaþjóðanna. Á tímum aðskilnaðarstefnunnar í Suður-Afríku léku Norðurlandaþjóðirnar aðalhlutverk þegar þjóðir heims hófu viðskiptaþvinganir gegn Suður-Afríku og mörg ríki heims slitu raunar líka stjórnmálasambandi. Norðurlöndin gegndu líka lykilhlutverki við efnahagslega uppbyggingu í kjölfar þess að apartheid-stjórnin féll.

Það er því þrennt, herra forseti, sem ég tel að við getum gert. Í fyrsta lagi geta Norðurlöndin borið fram formleg mótmæli gegn landráninu nýja, bæði við stjórnir Ísraels og Bandaríkjanna.

Í öðru lagi geta Íslendingar haft frumkvæði að því að Norðurlöndin stórauki efnahagslegan stuðning við uppbygginguna í Palestínu. Íslensk stjórnvöld gætu þar gengið á undan með góðu fordæmi með því að veita rausnarlegan stuðning við uppbyggingu heilsugæslu sjálfboðaliðasamtaka undir stjórn dr. Mustafas Barghouthis sem Íslendingum er að góðu kunnur.

Í þriðja lagi gætu íslensk stjórnvöld líka haft frumkvæði að því að Norðurlöndin og EFTA-ríkin ræddu um það formlega sín á milli hvort það sé tímabært að íhuga efnahagslegar aðgerðir. Það eitt að slíkt vitnaðist hefði fælandi áhrif á Ísraelsstjórn. Slíkt frumkvæði af okkar hálfu mundi vekja mikla athygli á alþjóðavísu. Ég minni á það, herra forseti, að Íslendingar hafa áður tekið djarfhuga forustu eins og varðandi viðurkenningu Eystrasaltsríkjanna.

Ég hef því leyft mér að spyrja hæstv. utanrrh.:

Er hann reiðubúinn að beita sér fyrir því að Ísland veiti myndarlegan stuðning við uppbyggingu t.d. heilsugæslu í Palestínu?

Er hann reiðubúinn til þess að hafa forgöngu um formleg mótmæli Norðurlandaþjóðanna við bæði Ísraelsstjórn og Bandaríkin vegna hins nýja landráns?

Er hann reiðubúinn til þess að ræða formlega við Norðurlöndin og EFTA-þjóðirnar um hvort tímabært sé að beita efnahagslegum aðgerðum eins og að ríki dragi sig út úr fríverslunarsamningum við Ísrael?