2004-05-26 13:53:48# 130. lþ. 127.95 fundur 598#B staðan fyrir botni Miðjarðarhafs og viðbrögð íslensku ríkisstjórnarinnar# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[13:53]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hæstv. utanrrh. hefur fordæmt ofbeldi Ísraela gegn Palestínumönnum og er það vel. Hins vegar verð ég að segja að mér finnst rangt að tala nánast í sama orðinu um kynþáttamúrinn og rétt Ísraela til sjálfsvarnar.

Spurningin sem við nú stöndum frammi fyrir er hvað Íslendingar geti gert til að stöðva ofbeldið sem Palestínumenn eru beittir. Ég hef hreyft þeirri hugmynd og leitað álits félagsins Ísland -- Palestína hvort ráð væri að Ísland sliti stjórnmálasambandi við Ísrael. Í mjög athyglisverðu svari félagsins, sem birtist á heimasíðu minni, segir að ofbeldið verði ekki stöðvað með því einu að fordæma það, heldur ekki með því að höfða til betri vitundar eða samvisku ísraelsku herforingjanna. Félagið kemst að þeirri niðurstöðu að nú eigi að segja upp viðskiptasamningum Íslands og EFTA við Ísrael og skora á Evrópusambandið að gera slíkt hið sama.

Í niðurlagi svars félagsins Ísland -- Palestína við fyrrgreindri fyrirspurn segir m.a., með leyfi forseta:

,,Á meðan stjórnarherrar í Ísrael sýna enga viðleitni til að fara að alþjóðalögum, og virða ályktanir öryggisráðsins að vettugi, þá þjónar það engum tilgangi að eiga í stjórnmálatengslum við landið. Það hefði á hinn bóginn heilmikinn tilgang að slíta slíku stjórnmálasambandi, því að þannig væri mjög alvarlegum skilaboðum komið áleiðis til Ísraelsstjórnar.``

Loks segir:

,,Þótt Ísland teljist ekki til voldugra ríkja heimsins þá geta siðferðileg áhrif okkar verið mikil í þessu sambandi. Eftir því yrði tekið í Ísrael og um allan heim ef eitt af elstu vinaríkjum Ísraels segði: Nei, nú er komið nóg.``