2004-05-26 13:55:49# 130. lþ. 127.95 fundur 598#B staðan fyrir botni Miðjarðarhafs og viðbrögð íslensku ríkisstjórnarinnar# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[13:55]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs er grafalvarlegt og því miður er fátt sem bendir til breytinga á því. Mannvíg, sjálfsmorðssprengjuárásir og brot á mannréttindum eru ekki leið til lausnar á þessu hræðilega ástandi. Engin leið önnur kemur til greina en að leita pólitískra og diplómatískra lausna.

Mjög oft hafa menn talið að lausn væri í nánd. Nefna má friðarsamkomulag Egypta og Ísraelsmanna árið 1979, viðurkenningu PLO á Ísrael árið 1988, sem leiddi til beinna samningaviðræðna, Óslóarsamkomulagið hið fyrra árið 1993 og hið síðara árið 1995. Ekkert bar þann árangur sem við höfðum auðvitað öll vonað og heimsbyggðin hafði vænst.

Sú algjöra tortryggni og hið fullkomna hatur sem þarna ríkir leyfir ekki að friður komist á. Friðarvegvísirinn á árinu 2002 vakti enn vonir um að stuðla mætti að friði fyrir botni Miðjarðarhafs. Þessi mikla friðaráætlun fól í sér ítrekaða viðurkenningu á Palestínuríki og var studd af Evrópusambandinu, Bandaríkjunum, Rússlandi og SÞ. Þetta var mikilvægur áfangi á friðarferli sem menn höfðu vonað að bæri árangur. Því miður er þessi áætlun nú algjörlega runnin út í sandinn.

Ísraelar hafa ráðið Gaza-svæðinu og umtalsverðum hluta Vesturbakkans frá lokum sex daga stríðsins árið 1967. Samkvæmt friðarferlinu, friðarvegvísinum sem nú er í tætlum, var gert ráð fyrir stofnun bráðabirgðaríkis Palestínu á þessu svæði strax á næsta ári þótt ætlunin hafi verið að ljúka samningum um landamærin síðar.

Aðalatriðið nú er að menn reyni að nýju að vekja upp friðarvegvísinn. Forsendan er auðvitað gagnkvæm viðurkenning deiluaðila, annars vegar Ísraela á sjálfstæðu ríki Palestínumanna og hins vegar á viðurkenningu Palestínumanna, þar með talið hryðjuverkasamtakanna Hamas, á tilveru Ísraelsríkis. Á meðan slíkt liggur ekki fyrir verða reistir múrar og ofstæki ríkir. Við eigum eins og jafnan að leggjast á árar með friðelskandi þjóðum og knýja á um friðsæla, pólitíska og diplómatíska lausn.