2004-05-26 14:04:22# 130. lþ. 127.95 fundur 598#B staðan fyrir botni Miðjarðarhafs og viðbrögð íslensku ríkisstjórnarinnar# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[14:04]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég ítreka þá skoðun mína að ég tel ekki að efnahagsþvinganir séu það úrræði sem dugi í þessum málum. Þó að ég ætli ekki að fara að gerast talsmaður sjónarmiða Bandaríkjanna á nokkurn hátt finnst mér samt að ekki megi oftúlka þau, eins og mér hefur fundist vera hér, því að það kom skýrt fram í orðum Bandaríkjaforseta í kjölfar nýlegs fundar með forsætisráðherra Ísraels um framtíðarlandamæri Ísraels og Palestínu að þau ættu að ákvarðast í samningaviðræðum deiluaðila.

Að okkar mati, íslenskra stjórnvalda, leikur enginn vafi á því að hernám Ísraela á Gaza-svæðinu, Vesturbakkanum og Austur-Jerúsalem er í trássi við alþjóðalög og að mínu mati er það sú stefna sem við verðum að fylgja. Það er þó rétt að taka það fram að Bandaríkjaforseti tók það skýrt fram að þessi landamæri ættu að ákvarðast á grundvelli samninga.

Eitt merkilegt hefur gerst í Ísrael sem segir meira en mörg orð, 150 þús. manns söfnuðust saman í Tel Aviv til að krefjast friðar á sama tíma og Ísraelsher réðst inn í Rafa-flóttamannabúðirnar. Það má ekki gleyma því að friðarhreyfingin í Ísrael hopaði í byrjun þessa áratugar vegna andstyggðar almennings á mannskæðum hryðjuverkum Palestínumanna. Vilji Ísraelsmanna til málamiðlana getur á næstunni vaxið í réttu hlutfalli við vilja og getu palestínsku sjálfsstjórnarinnar til að hafa hemil á öfgahópunum. Það er rétt að hafa þetta í huga.

Ég vil að lokum þakka þessa málefnalegu umræðu og þakka hv. frummælanda fyrir að taka þetta mál hér upp.