Almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 14:38:09 (9000)

2004-05-26 14:38:09# 130. lþ. 127.10 fundur 1002. mál: #A almenn hegningarlög# (rof á reynslulausn) frv. 73/2004, ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[14:38]

Ágúst Ólafur Ágústsson:

Herra forseti. Ég fagna framkomnu máli varðandi breytingu á almennum hegningarlögum. Þetta er mál sem allshn. flytur í heild sinni og ég held að hér sé á ferðinni afskaplega jákvætt mál. Það er að sjálfsögðu ekkert launungarmál að hreyfing komst á það eftir tiltekinn hörmungaratburð sem átti sér stað fyrri hluta þessa árs.

Ég tók þetta mál upp í upphafi þingfundar þann 6. apríl og ég taldi að þingið þyrfti að bregðast hratt við í ljósi þess galla sem ég taldi vera á lögunum. Ég sagði einnig að Samf. væri tilbúin til að liðka fyrir málinu svo hægt væri að bregðast við en við teljum að til þurfi að vera fljótvirk leið til að bregðast við þegar menn brjóta reynslulausn. Þess vegna fagna ég innilega framkomnu máli og skjótum viðbrögðum hlutaðeigandi aðila.