Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 15:20:17 (9006)

2004-05-26 15:20:17# 130. lþ. 127.12 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[15:20]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í sjálfu sér gætum við hv. þm. Katrín Júlíusdóttir sjálfsagt þjarkað um þetta daglangt. Ekki ætla ég mér það. Hins vegar vil ég benda hv. þm. á það, og öðrum sem á mál mitt hlusta, að væntanlega höfum við þegar séð ákveðnar afleiðingar, jákvæðar, af þeim lögum sem hér um ræðir því að samkvæmt niðurstöðum kjararannsóknarnefndar hafa laun kvenna hækkað marktækt meira nokkra ársfjórðunga í röð en laun karla. Ég a.m.k. leyfi mér að vona þó að ekki liggi að baki nákvæmar rannsóknir að þau lög sem hér um ræðir hafi þar nokkur áhrif.

Ég vil líka benda á það, hv. þm., að sá hópur sem hér um ræðir telur innan við 200 manns, þar af innan við 20 konur. Þetta þak snertir því mjög fáar fjölskyldur í landinu. Hins vegar er fyrst og fremst um ákveðið pólitískt stefnumið að ræða og mér hefur virst í umræðunum í dag að þetta pólitíska stefnumið njóti býsna víðtæks stuðnings þingmanna úr öllum flokkum, en eins og ég sagði áðan verðum við seint fyllilega sammála.