Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 15:21:51 (9007)

2004-05-26 15:21:51# 130. lþ. 127.12 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, Frsm. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[15:21]

Frsm. minni hluta félmn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því sérstaklega að hæstv. félmrh. tekur undir brtt. okkar í minni hlutanum um að umönnunar- og lífeyrisgreiðslur verði samrýmanlegar fæðingarorlofsgreiðslum þannig að umönnunargreiðslur og lífeyrir öryrkja falli ekki niður við töku fæðingarorlofs. Hæstv. ráðherra lýsir því yfir að hann og hæstv. heilbrrh. hafi rætt um það að þetta verði sérstaklega skoðað í sumar og lagt fram frv. um þetta efni á komandi hausti. Sömuleiðis fagna ég því að hæstv. ráðherra lýsir því einnig yfir um stöðu einstæðra foreldra, sem við höfum áhyggjur af og fram kemur í nefndaráliti okkar. Ráðherra hefur með yfirlýsingu sinni lýst vilja sínum til að það verði skoðað sérstaklega í sumar.

Hins vegar lýsi ég óánægju minni með það að hæstv. ráðherra taki ekki undir að tengja eigi fæðingarorlof við launavísitölu, bæði þakið og gólf viðmiðunarfjárhæða og að tekjur viðmiðunartímabils vegna greiðslu í fæðingarorlofi taki breytingum í samræmi við breytingar á launavísitölu á tímabilinu. Hæstv. ráðherra getur ekki tekið undir þetta og því er það ekki rétt sem hæstv. ráðherra heldur fram að með ákvæðum frv. sé verið að bæta raunverulegt tekjutap foreldra í fæðingarorlofi vegna þess að við höfum sýnt fram á það í minnihlutaáliti okkar að tekjur í fæðingarorlofi muni ekki verða 80% af tekjum heldur 70--75%.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann ætli að tryggja það að 80% greiðslur í fæðingarorlofi af tekjum haldi raungildi sínu ef hann miðar ekki við launavísitölu. Mun hann beita því ákvæði sem er að finna í frv. og hann getur beitt til að þakið og gólfið haldi þá raungildi sínu en lækki ekki stöðugt? En það hefur gerst eins og t.d. með greiðslur atvinnuleysisbóta og vitnar ráðherrann til að þar sé um sama viðmið að ræða.