Lyfjalög

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 18:04:50 (9017)

2004-05-26 18:04:50# 130. lþ. 127.14 fundur 880. mál: #A lyfjalög# (lyfjaverð og greiðsluþátttaka almannatrygginga) frv. 83/2004, JGunn
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[18:04]

Jón Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Þegar frv. til laga um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum, var lagt fram af hæstv. heilbrrh. Jóni Kristjánssyni fór ég efnislega í gegnum frv. við 1. umr. og ræddi ýmsa efnisliði við hæstv. heilbrrh. Ég hafði talsvert margt við frv. að athuga eins og það leit út þá.

Ég verð í þessu sambandi að leggja lykkju á leið mína og hæla framsóknarmönnum þótt ég geri það ekki oft, eða réttara sagt hæla hv. formanni heilbr.- og trn., Jónínu Bjartmarz, fyrir vinnuna á málinu. Á þessum síðustu dögum þingsins er fljótaskrift á ýmsu en að mínu viti var þetta mál vel unnið í heilbrn.- og trn., kallaðir til margir gestir og leitað eftir umsögnum víða og við gáfum okkur talsvert góðan tíma í að fara yfir og ræða málin og þau ágreiningsefni sem fyrir lágu, enda má segja að nefndin hafi komist að sameiginlegri niðurstöðu að mestu leyti. Ég sem hér stend er á meirihluta\-áliti nefndarinnar, með fyrirvara þó og mun ég gera smágrein fyrir í hverju fyrirvararnir eru fólgnir.

Eins og ég sagði komum við samfylkingarfulltrúar í nefndinni með margar ábendingar. Þær athugasemdir sem við gerðum við 1. umr. voru teknar til greina og hafa verið settar í nefndarálitið sem liggur fyrir og eins þær brtt. sem meiri hluti nefndarinnar gerir.

Það liggur náttúrlega fyrir að farið verður í heildarendurskoðun lyfjalaga fljótlega og ég er hjartanlega sammála því að full ástæða er til að hraða henni eins og hægt er því að við það að setja mig inn í málaflokkinn og fara yfir þessi mál í tengslum við frv. hef ég sannfærst um að það er full þörf á að fara í gegnum lyfjalögin eins og þau eru og endurskoða þau frá grunni.

Allir sem komu að þessari vinnu eru sammála um að við þurfum að ná niður lyfjakostnaði. Heildarlyfjakostnaður hér á Íslandi sl. ár var um 14 milljarðar kr. og viðamikil og ítarleg skýrsla Ríkisendurskoðunar um verðmyndun á lyfjum hérlendis og kerfið sem við búum við leiðir í ljós að lyfjakostnaður hér er um 46% hærri en í nágrannalöndunum sem við berum okkur saman við þrátt fyrir að lyfjanotkun í flestum lyfjaflokkum sé heldur minni hér. Þessi kostnaður hefur verið skýrður þannig að hér sé minna úrval af svokölluðum samheitalyfjum og meira notað af á ákveðnum tauga- og geðlyfjum en annars staðar og einnig að kostnaður við að dreifa lyfjum og selja þau á Íslandi sé meiri en í löndunum sem við berum okkur saman við.

Það má segja að lyfjamarkaðurinn í heiminum og lyfjabransinn í heild sinni sé svolítið undarlegur bransi, alla vega ef við berum þetta saman við venjuleg framleiðslufyrirtæki sem kaupa inn hráefni, framleiða vöru og selja síðan. Í því sem ég vil kalla venjuleg framleiðslufyrirtæki skiptir yfirleitt máli hver hráefniskostnaðurinn er og hver kostnaðurinn er við að framleiða hverja einingu. Það hefur talsvert mikið að segja í verðinu sem menn reyna síðan að fá fyrir vöruna eða framleiðsluna en í lyfjaframleiðslunni horfa menn frekar á getu hvers markaðar til að kaupa lyf og spyrja hver getan sé til að greiða fyrir þessi lífsnauðsynlegu lyf sem allir þurfa á að halda og verðleggja þau síðan út frá þeirri getu en ekki því hvað lyfið kostar í framleiðslu eða hver framleiðslukostnaðurinn hefur verið í heild.

Þetta er náttúrlega skakkur markaður að því leytinu til að í flestum löndum er það ríkið sem greiðir uppistöðuna í lyfjakostnaði og sjúklingar minni hlutann. Þegar svo er verður markaðurinn alltaf skakkur og mikil hætta á því að verðmyndun verði undarleg. Þetta verður til þess að menn hafa skoðað í talsvert miklum mæli möguleikana á því að kaupa lyf á ódýrari markaðssvæðum og flytja þau inn til dýrari markaðssvæða og það hefur verið kallað samhliða innflutningur lyfja. Þá er flutt inn nákvæmlega sama lyf og selt er á þessum dýra markaði frá ódýrara markaðslandi til að reyna að ná verðinu niður og síðan er það selt á lægra verði en frumlyfið, sem kallað er, sem er nákvæmlega sama lyf.

Það hefur ekki verið mikið um samhliða innflutning á Íslandi hingað til og ýmsar skýringar eru á því en í markmiðum frv. kom fram að menn ætluðu að reyna að auka samhliða innflutning á lyfjum með það í huga að ná niður lyfjaverði. Fyrstu hugmyndir sem fram komu í frv. um það hvernig ætti að verðleggja samhliða innflutt lyf gengu einfaldlega ekki og þegar menn fóru að skoða textann eins og hann leit út, og á það benti ég á við 1. umr., þá held ég að allir hafi sannfærst um að það gangi ekki að miða við skráð verð á lyfi í útflutningslandi þegar verðið á Íslandi er ákveðið heldur sé nauðsynlegt að gera þetta með öðrum hætti. Niðurstaða heilbr.- og trn. er sú að innflytjandi sem flytur inn samhliða innflutt lyf sæki um ákveðið verð, lyfjagreiðslunefndin nýja fari yfir þau gögn og verð á lyfinu á markaðnum og heimili væntanlega að það sé skráð en þó alltaf á lægra verði en frumlyfið sem keppt er við. Með þessu telja menn jafnvel að hægt sé að trappa verðið eitthvað niður smám saman en nú er ósköp lítil samkeppni við frumlyfin.

Í frv. er gert ráð fyrir að sameinaðar séu tvær nefndir, lyfjaverðsnefndin og greiðsluþátttökunefndin og ég held að allir séu sannfærðir um að sú aðgerð sé af hinu góða. Reyndar má segja að hin nýja sameinaða nefnd komi til með að hafa ansi breitt verksvið og talsvert mikil völd í þessum geira því að hún mun bæði ákveða hámarksverð lyfja og einnig greiðsluþátttökuverðið eins og það verður. Hluti af fyrirvara mínum við nefndarálitið og brtt. sem hér liggja fyrir er fólginn í því að ég sé ekki almennilega fyrir mér hvernig þetta kemur til með að ganga.

Annar fyrirvari sem við höfum sett varðar lyfin með sambærilegu meðferðaráhrifin. Við munum hvernig ráðherra fór til baka með reglugerð sína um lyf með sambærileg meðferðaráhrif, frestaði gildistöku hennar eftir að hann náði samkomulagi við heildsala á lyfjum en segja má að í þessu frv. sé í fyrsta skipti sett lagastoð undir kerfið. Hingað til hefur verið leitt óbeint af lyfjalögum að það sé heimilt og sett reglugerð en hér er fjallað beint um það í lögum. Að mínu viti höfðum við ekki nægilegan tíma til að fara yfir hvaða áhrif það hafi að gera þetta með þessum hætti.

Ég sé í sjálfu sér ekki tilgang í að fjölyrða mikið meira um þetta. Vinnan sem fram fór var góð og farið var yfir málið í heild sinni, frá a--ö. Frv. eins og það kemur til með að líta út, verði brtt. sem hér eru lagðar fram samþykktar, verður mun betra en það sem var lagt fram í upphafi og til bóta frá núverandi kerfi. Því er full ástæða til að veita því brautargengi.