Lyfjalög

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 18:15:09 (9018)

2004-05-26 18:15:09# 130. lþ. 127.14 fundur 880. mál: #A lyfjalög# (lyfjaverð og greiðsluþátttaka almannatrygginga) frv. 83/2004, ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[18:15]

Ágúst Ólafur Ágústsson:

Frú forseti. Ég held að hv. þm. Jón Gunnarsson hafi gert góða grein fyrir fyrirvörum okkar samfylkingarmanna sem varða þetta frv. Ég vil gera hans orð að mínum. Þess vegna ætla ég að vera stuttorður.

Eins og kom fram við 1. umr. á það að vera mikið forgangsmál að reyna að ná niður lyfjakostnaði. Lyfjakostnaður núna er um 14 milljarðar kr., þar af er hlutur ríkisins um 9,5 milljarðar og hlutur einstaklinganna því um 4,5 milljarðar. Þetta er að sjálfsögðu gríðarlega há upphæð en í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem kom út nýverið var bent á að ef lyfjakostnaður hér á landi væri svipaður og í Danmörku og Noregi væri hann um 4,4 milljörðum kr. lægri en nú. Til að setja þessa tölu í samhengi mætti reka Háskóla Íslands fyrir þessa upphæð í eitt ár, eða mjólkursamninginn sem ég veit að frsm. meiri hlutans, hv. þm. Drífu Hjartardóttur, er hugleikinn. Þetta sýnir um hvaða tölur er að ræða.

Það er einnig áhyggjuefni hvað lyfjakostnaður einstaklinga hefur aukist undanfarin ár og það er ekki eingöngu vegna notkunar á dýrum lyfjum og aukins magns. Ákveðnar aðgerðir stjórnvalda hafa fært lyfjakostnað á einstaklingana í auknum mæli. Samkvæmt riti Samtaka verslunarinnar hefur hlutfallið sem sjúklingur greiðir umfram gólf og upp að þaki hækkað úr 16% í 65% hjá almennum neytendum frá 1996--2002 og úr 8% í 50% hjá lífeyrisþegum fyrir lyf við langvinnum sjúkdómum. Þetta eru aðgerðir stjórnvalda, pólitískar ákvarðanir, sem hafa átt sinn þátt í því að lyfjakostnaðurinn hefur færst á einstaklingana í auknum mæli. Þetta er áhyggjuefni.

Strax við 1. umr. vöktum við fulltrúar Samfylkingarinnar í heilbr.- og trn. upp spurningar um samhliða innflutninginn. Í kjölfarið á vinnu nefndarinnar fór mikil umræða í gang um hann en við 1. umr. virtust áhyggjur okkar koma hæstv. heilbrrh. nokkuð á óvart. En ég held að frv. hafi batnað til muna hjá heilbr.- og trn. Í því er tekið fram að markmiðið sé m.a. að auka þennan svokallaða samhliða innflutning en við 1. umr. og í nefndinni bentum við strax á að eins og frv. lá fyrir var hætta á hinu gagnstæða, það mundi draga úr hvatanum til samhliða innflutnings þar sem miða átti við verð í útflutningslandinu. Það gat bæði verið flókið í framkvæmd vegna eðlis markaðarins sem samhliða innflytjendur eru á og þess hvað verðið var óljóst. En heilbr.- og trn. hefur ákveðið að fara ákveðna leið sem er hugsuð þannig að gera eigi samhliða innflutning meira heillandi og hafa í rauninni hvetjandi áhrif á hann en samhliða innflutningur á Íslandi er ekki mikill. Samhliða innflutt lyf eru t.d. með hærra hlutfall á markaðnum í Danmörku en hér og ég held að við þurfum einhvern veginn að stuðla að því að innflutningurinn aukist og leiði til lægri lyfjakostnaðar.

Eins og komið hefur fram, m.a. fyrir heilbr.- og trn., stendur til að endurskoða lyfjalögin. Ég held að fulltrúi heilbr.- og trmrn. hafi sagt að lyfjalögum hafi a.m.k. verið breytt 17 sinnum og í máli fulltrúa frá ráðuneytinu kom fram að þeir teldu kominn tíma á heildarendurskoðun lyfjalaga. Ég tek að sjálfsögðu undir það og held að við ættum að einhenda okkur sem fyrst í þá vinnu í þinginu. Við það þarf að sjálfsögðu að huga að því hvernig breytingarnar sem gerðar eru nú hafa virkað, hvort leiðirnar sem heilbr.- og trmn. mælist til að verði farnar hafa haft jákvæð áhrif á samhliða innflutninginn eins og þeim er ætlað. Við þurfum að sjálfsögðu að vera ófeimin við að endurskoða okkar eigin ákvarðanir ef þær stuðla ekki að lækkun lyfjakostnaðar sem er markmið nefndarinnar.

Einnig vöknuðu spurningar í meðförum nefndarinnar um svokölluð lyf með sambærileg meðferðaráhrif sem fjallað er um í frv. Á þetta benti fulltrúi Samfylkingarinnar við 1. umr. Hér er víst verið að lögfesta hluti sem voru áður í reglugerð. Í umsögn Læknafélagsins er bent á að hér gæti verið hætta á tvöföldu kerfi. Við þurfum að gæta þess að innleiða slíkt ekki í heilbrigðiskerfið og við þurfum að gæta þess að efnahagur sjúklinga hafi ekki úrslitaáhrif á hvaða lyf þeir fá. Við þurfum að vera vakandi fyrir þessu og mig langar að vitna aðeins í umsögn Læknafélagsins. Þar eru gerðar athugasemdir við 10. gr., sem snertir hin sambærilegu meðferðaráhrif, og hljóða svo, með leyfi forseta:

,,LÍ vill að lokum benda á að sum lyf innan tiltekinna flokka eru mismunandi og ekki sambærileg eins og gefið er í skyn í greinargerð með frumvarpinu og málflutningi heilbrigðis- og tryggingaráðuneytisins að undanförnu. Rannsóknir sem eru að koma fram þessi misserin benda til að þau séu ekki sambærileg eða með öðrum orðum, eitt lyf sé öðru betra fyrir bæði einstaklinga og hópa sem lyfið nota. Einnig benda líkur til að aukaverkanir séu mismunandi. Gera má ráð fyrir að vitneskja af þessu tagi fari í vöxt á næstu árum vegna vaxandi áherslu á að bera saman nýjungar við það besta sem fyrir er.``

Einnig er komið inn á þessar áhyggjur í umsögn Samtaka verslunar og þjónustu en þar stendur, með leyfi forseta:

,,Verið er að draga línu á milli þeirra efnameiri og hinna efnaminni. Þeir sem ekki hafa efni á dýrari lyfjum, sem læknir hefur ráðlagt, verða að skipta yfir í ódýrari lyf í viðkomandi flokki. Þetta eru oft á tíðum lyf sem eru alls ekki jafngild og því ekki heppilegust fyrir lyfjameðferð viðkomandi og hafa því í för með sér aukaverkanir og skert lífsgæði. Hér er verið að búa til ójöfnuð í heilbrigðiskerfinu, sem ekki hefur þekkst áður. Einnig geta menn velt því fyrir sér hvort slíkur ójöfnuður standist íslensk lög.``

Þetta er harkalega sagt hjá fulltrúum verslunar og þjónustu sem við þurfum að taka alvarlega. Við þurfum að gæta þess hvaða leið er farin en að sjálfsögðu verðum við að muna að samkvæmt því sem fulltrúar heilbr.- og trmrn. sögðu er eingöngu verið að lögfesta eitthvað sem er þegar í reglugerð.

Ég held að þetta sé eitt af því sem þarf að taka til skoðunar þegar endurskoðun á lyfjalögunum kemur fyrir þingheim og hugsanlega er þegar unnið að henni í heilbr.- og trmrn. Við þurfum að fara varlega. Við þurfum að hafa skilvirkt kerfi sem byggist á því að hér sé eitt heilbrigðiskerfi fyrir bæði efnaminni og efnameiri sjúklinga. Við þurfum að forðast óþarfa skriffinnsku við hugsanlegar undanþágur sem snerta þessi svokölluðu lyf með sambærileg meðferðaráhrif og við þurfum einfaldlega að fara varlega því að lyf eru að sjálfsögðu ekki eins og hver önnur vara. Lyf eru eitthvað sem fólk þarf einfaldlega á að halda og við eigum að líta á lyf sem hluta af heilbrigðisþjónustunni og þeim lífsgæðum sem við viljum búa öllum þegnum landsins burt séð frá efnahag.