Lokafjárlög 2000

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 18:33:17 (9022)

2004-05-26 18:33:17# 130. lþ. 127.25 fundur 326. mál: #A lokafjárlög 2000# frv. 100/2004, Frsm. 2. minni hluta JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[18:33]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason):

Frú forseti. Hér er til 3. umr. frv. til lokafjárlaga fyrir árið 2000. Ég vísa til nefndarálits sem ég skilaði inn fyrir 2. umr. en vil gjarnan rifja upp að skýrt er kveðið á um það í fjárreiðulögum að lokafjárlög skuli afgreiða á undan ríkisreikningi fyrir viðkomandi ár eða samhliða honum.

Nú er uppi sú furðulega staða að búið er að ganga frá ríkisreikningi fyrir árið 2000 og þar með búið að ákveða fjárveitingar og breytingar á fjárlögum. Í ríkisreikningi er búið að staðfesta breytingarnar sem nú á að staðfesta í lokafjárlögum. Vinnubrögðin samrýmast ekki fjárreiðulögum og á það hefur ítrekað verið bent. Það er afar gagnrýnisvert að fjmrn., sem ber ábyrgð á fjársýslunni, skuli viðhafa þessi vinnubrögð.

Langflest atriðin sem kveðið er á um í lokafjárlögum lágu fyrir á seinni hluta ársins 2000 og hægt hefði verið að láta þau koma fram í fjáraukalögum fyrir það ár. Þarna er um tugi milljarða kr. að ræða sem færðir eru inn og Alþingi er látið greiða atkvæði um þá fjórum árum eftir að til gjaldanna var stofnað. Hver heilvita maður sér að svona vinnulag gengur ekki enda hefur raunar enginn reynt að bera í bætifláka fyrir það.

Ég minnist þess að hafa vakið athygli á því við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár að verið væri að loka fjárlögum ársins 2000 með svokölluðum bókhaldsbrellum, að hæstv. fjmrh. væri að loka fjárlögunum til að velja sér hagstæða niðurstöðutölu sem liti vel út með því að færa ekki til gjalda útgjöld sem þegar hefðu verið ákveðin eða þegar hefðu orðið við árslok. Nú fáum við þau fjórum árum seinna við afgreiðslu lokafjárlaga.

Einnig ber að harma að fjmrn. skuli ekki hafa virt ítrekaðar athugasemdir við þetta vinnulag, bæði frá Ríkisendurskoðun og fjárln., um að ráðuneytið líti frjálslega á rétt sinn til millifærslna mörgum árum seinna, geri ekki grein fyrir þeim þegar í stað fyrir afgreiðslu fjáraukalaga fyrir árið eða ætti a.m.k. að ganga frá lokafjárlögum áður en gengið er frá ríkisreikningi fyrir árið. Fjmrn. hefur skellt skollaeyrum við þessum athugasemdum og nú höfum við það hér inni á borðum að sama vandamál á við um lokafjárlög fyrir árið 2001 og ekki er útséð um lokafjárlög fyrir árið 2002. Gefnar eru væntingar um að áður en gengið verður frá lokafjárlögum og ríkisreikningi fyrir 2003 verði hægt að koma þessu í lag en ljóst er að til þess þarf meira en orðin ein. Það þarf að taka þetta alvarlega en á það virðist hafa skort hjá hv. fjmrn. sem fer með þessi mál að staðan sé tekin alvarlega, lögin um fjárreiður ríkisins séu tekin alvarlega og farið eftir þeim og einnig að ábendingar bæði fjárln. og Ríkisendurskoðunar séu teknar alvarlega og farið eftir þeim í staðinn fyrir að virða þær að vettugi og láta það gerast ár eftir ár að búið sé að ganga frá ríkisreikningi fyrir árið en lokafjárlög, sem ríkisreikningur byggist á, komi mörgum árum seinna.

Ég ítreka það, frú forseti, að þetta vinnulag sem hefur tíðkast og liðist hjá fjmrn. er ekki vansalaust og verði ekki ráðin á þessu bót er fyllilega ástæða til þess að Alþingi, forsætisnefnd og forseti Alþingis sem á að hafa yfirumsjón með þessu vinnulagi, láti málið til sín taka.

Brtt. sem hv. formaður fjárln., Magnús Stefánsson, leggur hér fram staðfestir að ekki er samræmi á milli lokafjárlaga og ríkisreiknings fyrir árið og þess vegna verði að fara á svig við lög sem kveða á um að þetta skuli stemma. Hér er í rauninni lagt til að Alþingi samþykki lokafjárlögin með hálfgerðum fyrirvara.

Frú forseti. Þessi lokafjárlög, vinnan við þau og framkvæmd fjárlaganna í heild er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar, á ábyrgð framkvæmdarvaldsins. Hérna er aðeins borið inn frv. til staðfestingar á löngu orðnum hlut.