Tónlistarsjóður

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 19:00:42 (9030)

2004-05-26 19:00:42# 130. lþ. 127.29 fundur 910. mál: #A tónlistarsjóður# frv. 76/2004, Frsm. GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[19:00]

Frsm. menntmn. (Gunnar Birgisson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sjóðurinn er mjög mikilvægur fyrir útrás íslenskrar tónlistar sem getur orðið mjög mikilvæg útflutningsgrein og er orðin það. Tilgangurinn með stofnun sjóðsins er m.a. að styrkja útflutninginn og einnig tónleikahald á landsbyggðinni og annað slíkt.

Þegar ráðherra skipar nefndir, hvort sem það er minni hluti eða ekki, þá er skipunin pólitísk. Ég fullyrði að fulltrúar ráðherra í nefndum á vegum ráðuneytanna vita yfirleitt eitthvað um málin þannig að mér finnst hv. þm. gera lítið úr fulltrúum sem skipaðir eru pólitískt. Einhvern tíma verða þetta kannski samfylkingarmenn og flokksgæðingar Samfylkingarinnar verða þá í þessum embættum. Ég held að við ættum ekki að ræða málið á þessum nótum. Við erum að stofna tónlistarsjóð sem verður festur í lög á þessu þingi og við eigum að standa saman að þessu.

Útrásin hefur kannski ekki verið mikið styrkt en við höfum þó styrkt hana talsvert á safnliðum sem menntmn. hefur haft yfir að ráða. Þegar sjóðurinn verður kominn á koppinn verður stuðningurinn langtum markvissari og líkurnar á árangri meiri.

Ef rétt verður á málum haldið held ég að þetta geti orðið verulega gott mál fyrir útflutning á okkar list, þ.e. tónlist, og fyrir landsbyggðina, það er líka gott mál að hugsað sé um hana.