Tónlistarsjóður

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 19:02:47 (9031)

2004-05-26 19:02:47# 130. lþ. 127.29 fundur 910. mál: #A tónlistarsjóður# frv. 76/2004, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[19:02]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Frú forseti. Við leggjum til, eins og ég gat um áðan, að Samtónn skipi tvo fulltrúa af þremur í ráðið. Í athugasemdum við einstakar greinar frv. segir, með leyfi forseta:

,,Samtónn, sem eru samtök allra rétthafa tónlistar í landinu, tilnefna einn, en tveir verði skipaðir án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður ráðsins.``

Við töldum að það mætti verða sjóðnum og háleitum og góðum markmiðum hans til framdráttar að Samtónn skipaði tvo fulltrúa en ráðherra einn. Þetta eru samtök allra rétthafa tónlistar og þar af leiðandi allra sem hafa með tónlistina að gera og því væri það miklu heppilegra og eðlilegra og betra. Ég hef aldrei heyrt nein haldbær rök fyrir því að pólitíski yfirmaðurinn þurfi að skipa meiri hlutann. Það er sjálfsagt mál að ráðherra eigi sinn mann þarna inni og sjálfsagt að hann eigi formanninn. Í umræðum um málið og í umfjöllun nefndarinnar dró í sjálfu sér enginn í efa að ráðherra ætti að eiga mann þarna. En ég minnist þess ekki að hafa heyrt nein rök fyrir því að ráðherra verði að eiga meiri hluta ráðsmanna. Ég get ekki skilið það. Þess vegna gerðum við eindregnar og margundirstrikaðar athugasemdir sem líta svo dagsins ljós í brtt. okkar stjórnarandstöðuþingmanna í menntmn.

Tónlistarsjóðurinn er einmitt hið besta mál og við viljum vinna að framgangi hans. Við leggjum tillöguna fram honum til framdráttar af því að ég held að það verði sjóðnum fótakefli að meiri hluti ráðsins sé skipaður pólitískum fulltrúum.