Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 22:27:21 (9062)

2004-05-26 22:27:21# 130. lþ. 127.22 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[22:27]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef tvær spurningar til hv. þm. Guðjóns Hjörleifssonar varðandi nefndarálitið sem hann mælti fyrir. Þar kemur fram að reiknigrunnur hlutdeildar dagabáta sé samtals 9.500 tonn og skiptist þannig að gert sé ráð fyrir því að hver bátur fái 90% af fyrstu 50 lesta aflareynslu sinni og 40% af því sem umfram er í þorski og ufsa.

Fram kom að þetta gæti breyst og það stendur í nefndarálitinu. Eftir því sem ég best veit eru menn að vinna með aðrar tölur núna. Nú er unnið með 91% upp að 42,5 tonnum og 45% yfir því. Mig langar að fá staðfestingu á því hjá hv. formanni að tölurnar sem ég fer með séu þær sem unnið er með núna þannig að við getum talað um þetta út frá réttum forsendum.

Hin spurningin sem mig langar að biðja hv. formann sjútvn. að svara er einföld. Hún er sú: Er sátt við Landssamband smábátaeigenda um það sem hér er lagt fram?