Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 22:29:21 (9064)

2004-05-26 22:29:21# 130. lþ. 127.22 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[22:29]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. formanni sjútvn. fyrir að upplýsa okkur um að hann telji vera sátt við Landssamband smábátaeigenda. Mig langar að lesa, með leyfi forseta, upp úr endurriti fréttar sem var í ríkissjónvarpinu í kvöld kl. 7. Þar segir að forsvarsmenn Landssambands smábátaeigenda segist vera gáttaðir á því að svo skuli komið að við blasi að Alþingi afnemi sóknardagakerfið.

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir að það sé greinilegt að sjútvrh. hafi alltaf haft það á stefnuskrá sinni að leggja af sóknardagakerfi smábáta. ,,Okkur óraði samt sem áður ekki fyrir þessu miðað við viðræðurnar sem við áttum við hann nú á síðastliðnum árum og á síðastliðnum mánuðum,`` segir Örn í þessu viðtali og hann segir einnig: ,,Við höfðum engan grun um það að hann væri kominn með frv. sem mundi leggja af þetta kerfi.`` Þegar hann var spurður hvort félagsmenn telji sig beinlínis svikna svaraði hann: ,,Við teljum að það hafi verið komið aftan að okkur í þessu máli og það af hálfu sjútvrh.``

Að endingu segir hann að m.a. hafi þingmenn Norðaust. og formaður þingflokks Framsfl. lofað því að standa vörð um dagakerfið.